Í undanúrslitaviðureignum þurfti að vinna fimm leggi en í úrslitaleiknum sjálfum þurfti sex til sigurs. Ríkjandi meistari Úrvalsdeildarinnar í pílukasti, Vitor Charrua, tókst ekki að verja titilinn að þessu sinni.
Undanúrslitin hófust með viðureign Harðar Guðjónssonar frá Pílufélagi Grindavíkur og Haralds Birgissonar frá Pílukastfélagi Hafnarfjarðar. Eftir spennandi rimmu þar sem Haraldur tók 3-1 forystu tókst Herði að snúa gengi sínu við, vann næstu fjóra leggi og kom sér í úrslitin.
Hinum megin í undanúrslitunum voru þeir Hallgrímur Egilsson frá Pílukastfélagi Reykjavíkur og Páll Árni Pétursson úr Pílufélagi Grindavíkur. Jafnræði ríkti milli þeirra lengst af, þegar staðan var 4-3 Hallgrími í vil fékk Páll tækifæri til að jafna metin með útskoti á tvöföldum 20 en honum brást bogalistin. Hallgrímur hafði þrjár pílur til að skjóta sig út og komast í úrslitin en þurfti ekki nema eina.
Það voru því þeir Hallgrímur og Hörður sem kepptu til úrslita. Hörður tók fyrsta legginn en Hallgrímur vann svo fimm af næstu sex leggjum eftir það. Spennuþrungið andrúmsloft ríkti og brekkan var orðin ansi brött fyrir Hörð.
Hann klóraði vel í bakkann og vann næstu tvo leggi til að minnka muninn í 5-4. Herði gafst svo tækifæri til að jafna leikinn með útskoti á tvöföldum 20, en líkt og Páli í undanúrslitum brást honum bogalistin.
Aftur hafði Hallgrímur þrjár pílur í hendi til að skjóta sig út og fagna sigri. Tvær þurfti til í þetta sinn en sigurinn engu að síður í hús.
Hápunkta úrslitakvöldsins og viðtal við sigurvegarann Halla má finna í spilurunum hér að ofan.
Eftirvæntingin er ekki síðri fyrir Stjörnupílunni sem fram fer annað kvöld þar sem keppendur spreyta sig sem frægir eru fyrir allt annað en pílukast.
Stjörnupílan verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld, laugardaginn 2. desember klukkan 19:30.