Fótbolti

Gló­dís Perla lagði upp sigur­markið í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla lagði upp sigurmark kvöldsins.
Glódís Perla lagði upp sigurmark kvöldsins. EPA-EFE/ANNA SZILAGYI

Bayern München lagði París Saint-Germain á útivelli í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði gestanna, lagði upp sigurmarkið.

Glódís Perla var á sínum stað í vörn Bayern þegar liðið mætti til Parísar í kvöld. Þrátt fyrir aðeins eitt mark hafi verið skorað var leikurinn hin besta skemmtun og nóg af færum. Um miðbik fyrri hálfleiks komst Bayern yfir eftir einstaklega vel útfærða aukaspyrnu.

Boltanum var lyft á fjær þar sem Glódís Perla var mætt til að skalla fyrir markið. Mia Eriksson, hinn miðvörður Bayern, kom þar á ferðinni og böðlaði boltanum yfir línuna. Sjaldan sem „beint af æfingasvæðinu“ hefur átt betur við.

Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiks en í þeim síðari gerðu heimakonur allt sem þær gátu til að jafna. Ef þær strönduðu ekki á Glódísi Perlu og Eriksson þá mættu þeir markverði Bayern, Mariu Grohs, í fantaformi.

Bayern vann því frábæran 1-0 útisigur og er nú á toppi C-riðils með 4 stig að loknum tveimur leikjum. Ajax getur þó farið á toppinn með sigri á Roma í kvöld.

Í D-riðli heldur BK Häcken áfram að koma á óvart en sænska liðið lagði Real Madríd 2-1 í kvöld. Hin danska Signe Bruun kom Real reyndar yfir en eftir það svöruðu heimakonur með tveimur mörkum.

Rasul Kafaji Rosa jafnaði metin eftir tæpa klukkustund.

Saara Katariina Kosola skoraði svo það sem reyndist sigurmarkið, eftir sendingu frá Rasul Kafaji Rosa, á 76. mínútu. Lokatölur í Svíþjóð 2-1 og Häcken með 6 stig eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×