Körfubolti

Teitur lofsamar Tómas Val: „Þessi gæi er með allan pakkann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tómas Valur Þrastarson lét heldur betur til sín taka gegn Breiðabliki.
Tómas Valur Þrastarson lét heldur betur til sín taka gegn Breiðabliki. vísir/bára

Teitur Örlygsson hélt áfram að lofsama Tómas Val Þrastarson, leikmann Þórs Þ., í síðasti þætti Subway Körfuboltakvölds.

Tómas átti góðan leik þegar Þór sigraði Breiðablik, 120-104, á föstudaginn. Hann skoraði 27 stig, tók sex fráköst, gaf sjö stoðsendingar, stal boltanum fjórum sinnum og varði tvö skot.

„Hvað á maður að segja um hann? Það er alltaf verið að tala um eitthvað þak en hann er bara ótrúlega efnilegur þessi drengur. Það er styrkur og snerpa í honum, hann er með skot, honum finnst gaman að verja skot og hjálpa til í vörn. Hann er draumur,“ sagði Teitur.

Ómar Örn Sævarsson sagði nokkuð ljóst að Tómas spilaði ekki aftur á Íslandi í bráð.

„Ég held að hann eigi að njóta þessa tímabils; njóta þess að vera á Íslandi því þessi strákur kemur ekki aftur í langan, langan tíma,“ sagði Ómar.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld - Umræða um Tómas Val

„Þetta er geggjuð tölfræðilína og svo spilar hann alltaf frábæra vörn,“ bætti Ómar við. Teitur tók svo við boltanum.

„Þetta er geggjaður punktur hjá Ómari. Við sjáum meira að segja margreynda atvinnumenn sem koma til Íslands og eru ekki með neinn metnað til að spila vörn. Þessi gæi er með allan pakkann og þar finnst mér munurinn á góðum og frábærum gæjum vera,“ sagði Teitur.

„Það eru frábærir leikmenn sem þú getur treyst til að taka lokaskotið í sókninni og svo viltu að þessi gæi dekki manninn í hinu liðinu í lokasókninni því hann er líka besti varnarmaðurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×