Erlent

Portúgölsk lög­reglu­yfir­völd biðja for­eldra Madelein­e af­sökunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Madeleine McCann var þriggja ára þegar hún hvarf.
Madeleine McCann var þriggja ára þegar hún hvarf. Getty

Sendinefnd háttsettra lögreglufulltrúa frá Portúgal ferðaðist til Bretlands fyrr á þessu ári til að biðja Kate og Gerry McCann, foreldra Madeleine McCann, afsökunar á því hvernig rannsóknin á hvarfi dóttur þeirra fór fram og hvernig komið var fram við fjölskylduna.

Madeleine hvarf úr íbúð fjölskyldunnar í Praia da Luz árið 2007 og hefur aldrei fundist.

Samkvæmt BBC áttu lögreglumennirnir fund með Gerry McCann en hvorki fjölskyldan né lögregluyfirvöld í Portúgal hafa tjáð sig um heimsóknina.

Fjórum mánuðum eftir að Madeleine hvarf fengu foreldrar hennar stöðu grunaðra í málinu en þau voru talin hafa sviðsett ránið eftir dauða dóttur sinnar. Kate greindi frá því að henni hefði verið boðin samningur um styttri fangelsisvist gegn játningu.

Þau voru formlega hreinsuð af grun árið 2008 en skaðinn var skeður; margir töldu þau sek þrátt fyrir allt og þau mættu óvild bæði af hálfu lögreglu og almennings.

Goncalo Amaral, maðurinn sem fór fyrst með rannsókn málsins, var settur af en gaf síðar út bók þar sem hann sakaði McCann hjónin um að hafa átt þátt í hvarfi dóttur þeirra. Hjónin fóru í meiðyrðamál gegn Amaral en töpuðu því bæði í Portúgal og fyrir mannréttindadómstól Evrópu.

Lögregluyfirvöld í Portúgal hafa nú viðurkennt að rannsókn málsins hafi verið áfátt; bæði voru mál af þessu tagi þar sem barna var saknað ekki tekin alvarlega og þá var ekki tekið tillit til þess að um væri að ræða erlenda ferðamenn í umhverfi sem þau þekktu ekki.

Lögregluyfirvöld í Þýskalandi hafa hinn 46 ára Christian Brueckner grunaðan um að hafa myrt Madeleine en hann er kynferðisbrotamaður og hafðist um tíma við á Praia da Luz. Hann hefur neitað sök.

Foreldrar McCann hafa barist ötullega fyrir því að endurheimta dóttur sína og segjast ekki munu láta af leitinni fyrr en þau vita örlög hennar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×