Lífið

Þjóð­laga­söngvarinn Roger Whitta­ker fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Roger Whittaker á tónleikum í Þýskalandi árið 2006.
Roger Whittaker á tónleikum í Þýskalandi árið 2006. EPA

Breski þjóðlagasöngvarinn Roger Whittaker, sem meðal annars er þekktur fyrir smellina Durham Town frá árinu 1969 og Streets of London, er látinn. Hann varð 87 ára.

Whittaker þótti sérstaklega flinkur að blístra og nýtti sér það óspart í lögum sínum, en meðal annarra laga sem hann var þekkur fyrir má nefna The Last Farewell og New World in the Morning.

Í frétt BBC segir að plötur hans hafi selst í nærri fimmtíu milljónum eintaka á heimsvísu.

Whittaker fæddist í Naíróbí, höfuðborg Kenía, en foreldrar hans voru frá Staffordskíri í Englandi. Hann hóf söngferilinn þegar hann stundaði nám í læknisfræði í Kenía, en hætti á öðru ári þegar hann fluttist til Wales þar sem hann náði sér í kennsluréttindi og hélt áfram að syngja og semja.

Whittaker var mikill tungumálamaður og söng mörg lög sín einnig á þýsku og frönsku sem skilaði sér í auknum vinsældum hans á meginlandi Evrópu, sér í lagi í Þýskalandi.

Hann settist í helgan stein í Frakklandi árið 2012. Hann lætur eftir sig eiginkonuna Natalie, fimm börn og fjölda barnabarna.

Whittaker hélt nokkra tónleika á Broadway í Reykjavík árið 2000.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×