Sport

Matthías: Ekki sjálfgefið að fara í Víking á mínum aldri

Andri Már Eggertsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson skoraði fyrsta mark Víkings
Matthías Vilhjálmsson skoraði fyrsta mark Víkings Vísir/Hulda Margrét

Matthías Vilhjálmsson, leikmaður Víkings, var hæstánægður með sigur í bikarúrslitum. Matthías spilaði í miðverði og var ánægður með hvernig hann leysti það.

„Þetta var geggjuð frammistaða. Veðrið var eins og það var og við vissum að þetta yrði ekki fallegt en við vorum sterkari og við áttum sigurinn skilið. Við skoruðum tvö mörk eftir föst leikatriði og þetta var ljúft,“ sagði Matthías Vilhjálmsson eftir leik.

Matthías var ánægður með hörkuna sem Víkingur sýndi og hvernig liðið nýtti föstu leikatriðin sem skilaði tveimur mörkum.

„Smáatriðin skipta máli eins og föst leikatriði. Mér finnst við hafa verið helvíti góðir í föstum leikatriðum í sumar og þjálfarateymið fær hrós fyrir það.“

Matthías var afar auðmjúkur eftir að hafa unnið sinn sjötta bikarmeistaratitil. 

„Ég er auðmjúkur. Þetta var sjötti bikarmeistaratitillinn minn á ferlinum. Þetta er alltaf jafn gaman og þetta er einstakt lið sem ég er að fá að upplifa að spila með. Það var ekki sjálfgefið að koma í Víking 36 ára og ég er búinn að spila allar stöður og þetta hefur verið lygilegt.“

Það vakti athygli að Matthías spilaði í miðverði. Honum fannst það ganga vel og hrósaði Oliver Ekroth sem var með honum í miðverði.

„Mér fannst ganga vel í miðverðinum. Oliver var góður að stjórna mér en það fór um mig þegar mér var tilkynnt þetta í vikunni. Ég hefði verið til í að fá einn leik til að æfa þetta en ég spilaði svo sem þessa stöðu út í Noregi. Þetta snýst bara um að reyna að eyðileggja og það gekk fínt,“ sagði Matthías Vilhjálmsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×