Körfubolti

Tefldi í símanum frekar en að fylgjast með tón­leikum Dra­ke

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Derrick Rose kann vel við sig í New York en er í dag leikmaður Memphis.
Derrick Rose kann vel við sig í New York en er í dag leikmaður Memphis. Mike Stobe/Getty Images

Körfuboltamaðurinn Derrick Rose virðist nægilega mikill aðdáandi tónlistarmannsins Drake til þess að gera sér ferð að sjá rapparann sem ættaður er frá Kanada en þó ekki nægilega mikill aðdáandi til að fylgjast með tónleikunum sjálfum.

Myndband af Rose að spila skák í símanum sínum á miðjum Drake tónleikum fer nú sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum. Rose, sem var valinn verðmætasti leikmaður NBA árið 2011, leikur í dag með Memphis Grizzlies í NBA-deildinni í körfubolta.

Hann hefur áður leikið fyrir Chicago Bulls, New York Knicks, Cleveland Cavaliers, Minnesota Timberwolves og Detroit Pistons.

Hinn 34 ára gamli Rose er líkt og flestir leikmenn NBA-deildarinnar í sumarfríi um þessar mundir. Fjöldi leikmanna hefur undanfarnar vikur keppt á HM í körfubolta en Rose hefur nýtt sumarið til að hlaða rafhlöðurnar og slaka á.

Rose og Drake eiga sér sögu en leikmaðurinn er einn fjölmargra íþróttamanna sem Drake hefur sungið um.

„I had to Derrick Rose the knee up before I got the re-up,“ 

segir í laginu Furthest Thing.

Það kom því ef til vill ekki á óvart að Rose hafi verið meðal þeirra sem mættu á tónleika Drake í Glendale í Arizona-fylki á miðvikudaginn var. Það virðist þó sem tónleikarnir hafi ekki hrifið Rose sem vildi heldur spila skák í símanum.

Ef til vill var Rose mættur með syni sínum en þó nokkur ár eru komin síðan sonur hans, P.J., fékk að fara upp á svið á miðjum tónleikum hjá Drake. 

Hvort sonurinn hafi verið með í för og hvort hann hafi fengið að fara upp á svið öðru sinni er ekki vitað að svo stöddu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×