Körfubolti

Nýra fjar­lægt eftir oln­boga­skot á HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Boriša Simanić og Nuni Omot í leiknum á miðvikudaginn var.
Boriša Simanić og Nuni Omot í leiknum á miðvikudaginn var. FIBA

Fjarlægja þurfti nýra úr Boriša Simanić, kraftframherji serbneska landsliðsins í körfubolta, eftir að hann fékk hafa olnbogaskot í síðuna í leik Serbíu á HM í körfubolta sem nú fer fram í Filipseyjum, Japan og Indónesíu.

Frá þessu greindi serbneska körfuknattleikssambandið í dag, mánudag. Simanić fékk högg frá Nuni Omot í leik gegn Suður-Súdan í síðustu viku. Simanić hrundi strax í jörðina og ljóst var að sársaukinn var mikill.

Simanić fór með hraði upp á spítala þar sem hann fór í aðgerð sama kvöld. Um helgina kom upp sú staða að leikmanninn vantaði blóð og það gekk illa að finna blóðflokk hans á spítalanum. Buðust fjölmargir samherjar Simanić til að aðstoða og gefa blóð.

Á sunnudag fór svo hinn 25 ára gamli Simanić í aðra aðgerð og þá var skaddaða nýrað fjarlægt. Hann mun nú eyða dágóðum tíma á spítala í Manila, höfuðborg Filipseyja, á meðan hann jafnar sig.

Omut hefur beðist afsökunar á atvikinu: „Ég biðst afsökunar, ég ætlaði ekki að meiða neinn. Ég vona að þú jafnir þig fljótt og ég mun biðja fyrir snöggum bata. Ég er ekki grófur leikmaður, hef aldrei verið. Ég biðst innilegrar sökunar.“

Á fimmtudag, 7. september, mun Serbía mæta Litáen í 8-liða úrslitum HM í körfubolta. Litáen lagði Bandaríkin fyrir skemmstu og eru því engin lömb að leika sér við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×