Fótbolti

Krísufundur boðaður hjá spænska fótboltasambandinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Rubiales faðmaði leikmenn spænska liðsins og kyssti eftir leikinn. Ósæmileg hegðun hans hefur hneykslað marga.
Luis Rubiales faðmaði leikmenn spænska liðsins og kyssti eftir leikinn. Ósæmileg hegðun hans hefur hneykslað marga. Getty/Jose Breton

Ef allt væri eðlilegt þá ættu forráðamenn spænska knattspyrnusambandsins að vera að fagna og monta sig af heimsmeistaratitli kvennalandsliðsins næstu daga. Í staðinn glíma þeir við risastórt vandamál.

Spánn vann HM kvenna í fótbolta í fyrsta sinn á sunnudaginn en síðan hefur umfjöllunin um árangur liðsins aðallega snúist um hegðun forseta spænska knattspyrnusambandsins á úrslitaleiknum.

Hinar frábæru landsliðskonur Spánar hafa þurft að sætta sig að vera svolítið í skugganum af fréttum af hegðun hæstráðanda í spænskum fótbolta.

Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, kyssti Jennifer Hermoso, einn leikmanna spænska liðsins beint á munninn í verðlaunaafhendingunni, faðmaði síðan alla leikmenn liðsins innilega og kyssti svo fleiri leikmenn út á velli í kjölfarið en ekki þó á muninn.

Þetta byrjað hins vegar allt þegar hann greip um klofið á sér í leikslok og fagnaði sigri með óboðlegum hætti, nánast við hlið spænsku drottningarinnar í heiðursstúkunni.

Rubiales gerði lítið út gagnrýninni til að byrja með en baðst svo afsökunar og reyndi allt til að þvinga Jennifer Hermoso til að vera með í þeirri afsökun. Hún varð ekki við því.

Gagnrýnin hefur komið alls staðar að, ekki aðeins í heimalandinu heldur út um allan heim. Spænski forsætisráðherrann er einn þeirra sem hefur fordæmt hegðun Rubiales.

Nú hefur spænska knattspyrnusambandið boðið neyðarfund, sannkallaðan krísufund í lok vikunnar.

Fundurinn verður mögulega strax á morgun. Sambandið sendi frá sér tilkynningu um neyðarfund hjá stjórn sambandsins þar sem kemur fram að þetta mál verði tekið fyrir sem agamál.

Spænska stórblaðið Marca segir að Rubiales ætli ekki að segja af sér og ætli að verja sig á neyðarfundi stjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×