Innlent

Eins og að kynda upp stóran hluta Ísa­fjarðar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Orkustjóri Orkubús Vestfjarða, Elías Jónatansson, og Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjarhafna.
Orkustjóri Orkubús Vestfjarða, Elías Jónatansson, og Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjarhafna. Vísir/Samsett

Á næsta ári munu smærri skemmtiferðaskip að öllum líkindum geta landtengt sig á Ísafirði. Hafnarstjóri segir að sterkari flutningsgetu þurfi á höfnina fyrir stærri skip. Orkustjóri Orkubús Vestfjarða segir nauðsynlegt að virkja meira á Vestfjörðum. 

Rafvæðing hafnarinnar á Ísafirði hófst fyrir um fjórum árum og lýkur líklega á næsta ári, en aðeins fyrir smærri skip.

Hafnarstjóri Ísafjarðarhafna, Hilmar Kristjánsson Lyngmo, segir að frekari framkvæmd þurfi að ræða í hafnar- og bæjarstjórn en að það þurfi sterkari flutningsgetu á hafnarsvæðið. Í nýrri skýrslu er Ísland á topp tíu þeirra landa þar sem skemmtiferðaskip menga mest í Evrópu. Ísafjarðarhöfn gerir ráð fyrir því að taka við 180 skipum í sumar sem skilar þeim um 300 milljónum í tekjur.

Hilmar segir að eins og stendur sé verið að stækka hafnarkantinn sem skemmtiferðaskipin leggi við og að frekari framkvæmdir verði ræddar í hafnarstjórn í vetur.

„Það eru lagðar lagnaleiðir í kantinn þannig sé hægt að koma búnaði fyrir og tengja hann, ef og þegar það verður gert. En staðan á Ísafirði er þannig að það vantar sterkari flutningsgetu á hafnarsvæðið,“ segir Hilmar.

Flest skipin með hreinsibúnað

Hvað varðar mengun á Ísafirði segir Hilmar að um 90 prósent þeirra skipa sem leggi við bæinn séu með hreinsibúnað.

„Það er oft hvít gufa sem kemur upp úr þeim sem er þá hreinsaður reykur, en ef það er dekkri reykur þá er mengun í því. Það sem af er sumri höfum við ekki lent í slysi eins og á Akureyri þar sem mökkurinn kom upp úr.“

Honum líst vel á einkunnagjöf sem hafin er á Akureyri og Hafnarfirði um mengun skipanna og segir aukna kröfu frá skipafélögum að geta landtengt.

„Ég hef fengið í sumar og vor mikið af fyrirspurnum frá skipafélögum hvort það sé í boði að fá rafmagn. Þannig það er komin krafa frá skipafélögum að geta tengst, og sú pressa á eftir að aukast meira bara.“

Geta brugðist við á einu ári

Orkustjóri Orkubús Vestfjarða segir engin tæknileg vandamál við það að rafvæða hafnirnar frekar og að þau geti brugðist við því á um ári.

„Ef þetta yrði mikið afl þyrftum við að styrkja kerfið á Ísafjarðarhöfn og jafnvel með því að leggja nýjan streng í aðveitustöð í fjarðarbotninum og út á höfn. Það eru svona fjórir kílómetrar,“ segir Elías Jónatansson, orkustjóri, og að þrátt fyrir að um stóra framkvæmd sé að ræða sé ekkert sem mæli gegn því að framkvæma hana.

Elías Jónatansson er orkustjóri Orkubús Vestfjarða og segir nauðsynlegt að virkja meira á Vestfjörðum. Vísir/Skjáskot

Hann segir nauðsynlegt sé að virkja meira á Vestfjörðum til að anna eftirspurn, ekki bara fyrir skipin, heldur alla íbúa.

„Það er enginn að fara að virkja meira út af einu verkefni, eða kúnna eins og Ísafjarðarhöfn, en almennt þá vantar að virkja meira á Vestfjörðum vegna aukinnar notkunar, ekki bara frá ferðamennsku heldur ýmissi atvinnustarfsemi. Fyrir utan að raforkuöryggið á Vestfjörðum er ekki nægilega mikið, og við þurfum að virkja bara þess vegna,“ segir Elías en eins og stendur er afl sótt utan Vestfjarða fyrir helming af þeirri orku sem er verið að nota.

„Það þarf helst að virkja hér 30 til 40 megavött ef vel á að vera.“

Elías segir að skipin geti sannarlega verið stórir notendur. „við erum að tala um stærðargráðu, ef þetta á að vera allt aflið sem þau nota, þá erum við að tala um tíu til fimmtán megavött sem er svipað eins og við erum að nota á fjarvarmaveituna sem er á eyrinni. Hún er með uppsett afl tíu megavött. Þannig í samanburðinum er þetta eins og að kynda upp stóran hluta Ísafjarðar.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×