Körfubolti

James Harden staðráðinn í að hefja leik með Clippers í haust

Siggeir Ævarsson skrifar
James Harden í leik gegn Golden State Warriors
James Harden í leik gegn Golden State Warriors Vísir/Getty

Sagan endalausa um möguleg félagaskipti James Harden heldur áfram en hann er nú sagður staðráðinn í að hefja komandi tímabil sem leikmaður Los Angeles Clippers.

Fyrr í sumar hafði Harden ákveðið að nýta sér ekki eins árs framlengingarákvæði í samningi sínum og freista gæfunnar ósamningsbundinn á leikmannamarkaðnum. Kom þó fljótlega í ljós að áhugi annarra liða á leikmanninum var minni en hann hafði reiknað með og ekki hjálpuðu stífar launakröfur hans til.

Mikið var rætt um mögulega endurkomu hans til Houston Rockets, en ekkert varð úr þeim orðrómi og að lokum ákvað Harden að taka ekki þá áhættu að eiga ekki fyrir salti í grautinn næsta vetur og framlengdi samning sinn við 76ers rétt fyrir mánaðamót.

Það þýðir þó ekki að Harden hafi áhuga á að vera áfram búsettur í heimaborg Rocky Balboa. Heimildamenn nátengdir Harden segja að hann sé ósáttur við það hvernig Daryl Morey, forseti 76ers, hefur höndlað möguleg félagaskipti hans og nú ætli hann sér að skipta yfir til Los Angeles Clippers, sama hvað.

Á meðan Harden bíður eftir félagaskiptum heldur hann þó áfram að umgangast liðsfélaga sína hjá 76ers en hann og Joel Embid sáust skemmta sér saman í Vegas á dögunum og fór vel á með þeim. Embid lét hafa eftir sér að hann vonaðist eftir því að Harden skipti um skoðun en hann virðist hafa gert upp hug sinn um framtíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×