Lífið

Þveraði landið með föður sínum á fjórhjóli

Máni Snær Þorláksson skrifar
Birna er ánægð með að hafa ákveðið að fara í ferðina með föður sínum.
Birna er ánægð með að hafa ákveðið að fara í ferðina með föður sínum. Aðsend

Fyrir rúmri viku síðan lagði Birna Bragadóttir af stað í ævintýraför ásamt föður sínum, Braga Guðmundssyni. Feðginin ferðuðust á fimm dögum þvert yfir Ísland á fjórhjólum, horn í horn eins og þau kalla það.

Ferðin hófst með því að ferja fjórhjólin frá Reykjavík til Þórshafnar á Langanesi. Á leiðinni komu þau við í kirkjugarði þar sem amma Birnu hvílir. Birna segir að þar hafi það rifjast upp fyrir þeim að ömmu hennar hafi fundist hún þurfa að eiga erindi ef hún ætlaði að fara í ferðalag. Annars væri ferðin í erindisleysi.

Sem þessi ferð Birnu og Braga var, svokölluð erindisleysa.

Þegar komið var í Þórshöfn voru fjórhjólin tekin fram. Feðginin fóru út að vitanum á Fonti en það var einmitt þar sem ferðalagið hófst með formlegum hætti. „Ferðin hófst með því að snerta vitann,“ segir Birna í samtali við blaðamann. Stefnan var svo sett þvert yfir landið, að Reykjanesvita.

Ferðalagið hófst formlega þegar feðginin snertu vitann á Fonti.Aðsend

Ómetanleg ferð

Um er að ræða ferð sem Bragi hafði áður farið í á fjórhjóli. Í mars á þessu ári viðraði hann hugmynd um að leggja aftur í þessa ferð og fannst Birnu þá tilvalið að skella sér með. „Pabbi er 75 ára og hefur alla tíð verið með ólæknandi bíla- og útivistadellu. Hann þekkir landið eins og lófann á sér og ég hafði aldrei farið í svona ferð.“

Birna segir að hún hefði ekki treyst sér til að fara með neinum öðrum en föður sínum upp á hálendið. Hann þekki landið en einnig fjórhjólið, geti gert við það ef eitthvað bilar.

„Svo fannst mér líka ótrúlega gaman að vera með svona krefjandi verkefni með pabba mínum, eiga þetta verkefni saman og upplifa landið og alla þessa staði sem ég hafði ekki séð áður með honum. Mér fannst það ómetanlegt í rauninni.“

Skoðuðu perlur á hálendinu

Fyrsta daginn fóru feðginin frá Fonti og á Ytra lón á Langanesi. Þaðan lögðu þau af stað á öðrum degi og fóru til Þórshafnar, yfir Öxnafjarðarheiði og meðfram Jökulsá á fjöllum. Þar biluðu bæði fjórhjólin með stuttu millibili en Braga tókst að laga þau. Þennan daginn enduðu þau í Drekagili.

Næsti dagur var, eins og Birna kemur því að orði, í fullkomnu erindisleysi. Þau fóru í 138 kílómetra lykkju á hálendinu og færðust ekki nær áfangastað. „Við fórum frá Drekagili yfir Jökulsá á fjöllum, fórum þaðan inn í Kverkfjöll og svo að Hvannalindum. Þetta er góður hringur og við enduðum á að skoða Öskju og Víti,“ segir Birna.

Birna sá margar náttúruperlur í fyrsta skipti í ferðinni.Aðsend

„Þegar maður er komin þarna upp á hálendið þá er náttúrulega alveg geggjað að skoða allar þessar perlur. Af því þessir vegir eru ekkert rosalega aðgengilegir.“

Fjórði dagurinn var gríðarlega krefjandi en feðginin enduðu á að taka tvær dagsleiðir þann daginn. Þau vöknuðu fyrir allar aldir til að fá sem bestar aðstæður. Upphaflega ætluðu þau að stoppa í skála í Nýjadal en þar var ekki nógu mikið um að vera.

„Við vorum með súrt nesti og einn spilastokk þannig við ákváðum bara að taka dagleið númer fimm líka,“ segir Birna. Þau feðginin enduðu því þennan daginn í sumarbústað á Suðurlandi. Þar gistu þau eina nótt og lögðu svo af stað út á Reykjanes.

Birna og Bragi ásamt fjórhjólunum sínum, Svaðilfara og Sólfara.Aðsend

Feðginin fóru þó ekki beinustu leið þangað því Bragi vildi að þessi dagur yrði líka almennilegur. Því var ákveðið að taka áttatíu kílómetra aukaleið á Suðurlandi áður en haldið var út á Reykjanes þar sem við þeim tók eldgos.

„Við fundum auðvitað lyktina af gosinu og sáum alla ferðamennina streyma að. Þá stefndum við að Reykjanesvita, stoppuðum aðeins í Grindavík og komum að vitanum klukkan átta um kvöldið og skiluðum kveðju frá Fonti.“

Ferðinni lauk þegar feðginin snertu Reykjanesvita og skiluðu honum kveðju frá kollega sínum á Fonti.Aðsend

Göptu yfir fegurðinni á hverjum degi

Birna segir að ferðalagið hafi verið algjörlega stórbrotið. „Þetta voru 1.100 kílómetrar af ævintýrum,“ segir Birna sem bætir við að þau hafi fengið sól alla dagana.

„Það var náttúrulega ótrúlegt að fá að upplifa landið með þessum hætti. Þú byrjar náttúrulega þar sem eru klettabjörg, strendur og fuglalíf, finnur fyrir hafstrauminum. Maður er við endamörk alheimsins. Maður upplifir allar þessar stórbrotnu andstæður í landslaginu sem eru svo magnaðar.“

Sjálf hafði Birna aldrei komið á marga af þessum stöðum áður, pabbi hennar hafði þó komið þangað oft. „Pabbi hafði náttúrulega oft komið þarna, ég hafði aldrei komið að Herðubreið, Öskju, Drekagil og Kverkfjöll.“

Bragi er þaulvanur og þekkir landið eins og lófann á sér.Aðsend

Birna segir að í ferðinni hafi þau upplifað að krafturinn í náttúrunni sé óendanlegur. „Við vorum á hverjum degi bæði gapandi yfir fegurðinni sem blasti við okkur,“ segir hún.

„Við vorum með útsýni alla daga. Þegar maður fer yfir hálendið þá sér maður að Herðubreið vakir yfir manni eins og drottning í ríki sínu. Svo kveður maður Herðubreið og þá tekur Trölladyngja við sem maður er alltaf með í augnsýn, það er allt mjög tröllslegt og erfitt þá, eins og það sé verið að gera manni erfitt fyrir.“

Bera þurfi virðingu fyrir náttúrunni

Birna segir að íslensk náttúra sé mögnuð en að hún hafi upplifað það líka hvað hún getur verið miskunnarlaus. „Maður þarf að bera virðingu fyrir henni og vinna með henni og vera skynsamur,“ segir hún.

„Það er mjög auðvelt að sprengja dekk, maður vill ekki velta hjólinu eða detta af því. Eða bara ef það kemur upp bilun þá er maður svolítið varnarlaus. Þannig maður þarf að fara í svona ferðalag með mikilli skynsemi. Það er betra að fara aðeins hægar og koma heim bæði heill og með heilt hjól.“

Birna undirstrikar mikilvægi þess að undirbúa sig vel og bera virðingu fyrir náttúrunni.Aðsend

Feðginin voru því mjög vel undirbúin fyrir ferðina og tilbúin í allt:

„Við vorum með sextíu lítra af bensíni með okkur uppi á hálendi. Við þurftum að bera allar vistir og allt bensín með okkur frá Öskju afleggjaranum. Þar hitti mamma okkur og við tókum þá bensínbrúsana, allar vistir og allt sem við þurftum.“

Þá keyrðu þau skynsamlega til að nýta eldsneytið sem mest. „Maður þarf að plana svona ferð gríðarlega vel,“ segir Birna.

Ferð sem þessi sé þá einnig krefjandi og líkamlega erfið. „Þú þarft úthald, seiglu og styrk til að fara í svona ferðalag. Ég hef gengið yfir Vatnajökul, synt Ermasundið og gert alls konar hluti. Þetta var alveg eins krefjandi en stórkostleg upplifun.“

„Lífið er bara núna“

Birna segir að þetta hafi verið ótrúlega skemmtileg ferð. Sérstaklega sé það skemmtilegt að eiga minninguna um ferðina með pabba sínum sem þekkir landið svona vel. „Þetta er bara ferð sem ég fer í einu sinni og hún er með pabba,“ segir hún.

„Maður sér hluti bara einu sinni í fyrsta skipti og það er alltaf gaman að upplifa það með fólki sem manni þykir vænt um og eiga þessar minningar.“

Bragi kann að laga hjólin og þekkir þau út og inn.Aðsend

Það sé þá einnig ótrúlega eflandi að hafa klárað ferðina. „Ég held að ég sé orðin bara nokkuð góð á fjórhjóli eftir 1.100 kílómetra. Þetta er pínu hættulegt því nú er ég búin að fá smjörþefinn af þessu og finn hvað maður er fljótur af stað, þetta opnar svo aðgengi að alls konar hlutum.“

Þá segir Birna að það séu forréttindi fyrir þau feðginin að hafa heilsu og getu til að fara í svona ferð. „Ég er auðvitað bara ánægð að hafa stokkið á það og nýtt mér það að geta farið með pabba sem er orðinn 75 ára í svona brjálæðislega krefjandi og skemmtilega ferð,“ segir hún.

„Hann veitir mér gríðarlegan innblástur í því hvernig hann heldur sjálfum sér svona ungum og er ákafur í því að lifa lífinu og njóta lífsins, setja sér krefjandi markmið þrátt fyrir að vera orðinn 75 ára gamall. Hann fékk krabbamein fyrir nokkrum árum og sigraðist á því. Lífið er bara núna og maður á líka að gera það sem er skemmtilegt. Upplifa stórkostleg ævintýri með fólkinu sínu, hver sem þau eru.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×