Sport

Ca­ster Semenya vann mál fyrir Mann­réttinda­dóm­stóli Evrópu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Caster Semenya vann áfangasigur í baráttu sinni í dag.
Caster Semenya vann áfangasigur í baráttu sinni í dag. Vísir/Getty

Suðurafríska hlaupakonan Caster Semenya vann mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem varðar reglur um magn testósteróns hjá frjálsíþróttafólki. Þó lítur ekki út fyrir að hún keppi á Ólympíuleikunum í París á næsta ári.

Hin þrjátíu og tveggja ára gamla Caster Semenya hefur í mörg ár barist gegn reglum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins sem gerir það að verkum að hún og fleiri íþróttakonur hafa þurft að taka lyf til að minnka magn testósteróns í blóðinu ætli þær að keppa í ákveðnum greinum. 

Á þetta við um íþróttakonur sem af náttúrulegum ástæðum eru með hærra magn testósteróns í blóðinu en konur almennt, á ensku kallað DSD (Differences in sexual development). 

Semenya hafði áður tapað málaferlum fyrir Alþjóða íþróttadómstólnum (CAS) sem og hæstarétti í Sviss en þegar málið var tekið fyrir hjá Mannréttindadómstólnum vann hún áfrýjunarmál og úrskurðaði dómurinn að brotið hefði verið á réttindum Semenya.

Samkvæmt AP fréttastofunni höfðaði Semenya málið fyrir Mannréttindadómstólnum gegn stjórnvöldum í Sviss. Það kemur til vegna þess að þegar Semenya tapaði máli fyrir CAS árið 2019 áfrýjaði hún málinu til hæstaréttar í Sviss. 

Eftir ákvörðun Mannréttinadómstólsins er framtíð reglanna í óvissu, en þó svaraði Alþjóða frjálsíþróttasambandið því strax í kjölfar birtingu dómsins að reglurnar yrðu áfram í gildi.

„Við erum enn á þeirri skoðun að DSD-reglurnar séu nauðsynlegt og sanngjarnt verkfæri til að vernda heiðarleika í keppni kvenna, líkt og CAS og hæstiréttur Sviss hafa áður úrskurðað um eftir ítarlegt mat á sönnunargögnum,“ segir í yfirlýsingu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins en þar sagði jafnframt að reglurnar yrði áfram í gildi og að sambandið myndi hvetja yfirvöld í Sviss til að áfrýja niðurstöðunni.

Tóku ekki nægjanlegt tillit til mikilvægra þátta

Eins og áður segir hefur Semenya barist gegn reglunum í mörg ár. Semenya fæddist sem kvenmaður og hefur skilgreint sig sem konu allt sitt líf. Í frétt AP kemur fram að hún sé með svipað magn testósteróns í blóðinu og karlmaður og Alþjóða frjálsíþróttasambandið segir að það gefi henni ósanngjarnt forskot í kvennaflokki frjálsra íþrótta.

Semenya varð Ólympíumeistari í 800 metra hlaupi bæði í London árið 2012 sem og í Ríó árið 2016. Síðan reglurnar tóku gildi hefur hún keppt í 200, 5000 og 10.000 metra hlaupi án sama árangurs en DSD-reglurnar eru ekki eins strangar í öllum hlaupagreinum.

Dómurinn sem féll í dag er gagnrýninn á ákvörðun CAS frá árinu 2019. Þá festi dómurinn reglurnar í gildi en þær þvinga Semenya og fleiri íþróttakonur til að taka getnaðarvarnarpillur, hormónablokkerandi lyf eða gangast undir aðgerð til að geta keppt í kvennaflokki á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum.

Samkvæmt Mannréttindadómstólnum tók CAS ekki nægilega til greina mikilvæga þætti eins og aukaverkanir af völdum lyfjagjafar, erfiðleika íþróttakvenna að fylgja reglunum og skort á sönnunargögnum að hærra magn testósteróns gæfi íþróttakonunum í raun forskot.

Þá segir dómstóllinn enn fremur að áfrýjun Semenya fyrir hæstarétti Sviss hefði átt að þýða að reglurnar hefðu verið endurskoðaðar í þaula sem ekki var gert.

Samkvæmt dómnum fær Semenya 60.000 evrur í bætur frá svissneska ríkinu vegna kostnaðar við málsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×