Körfubolti

KR-konur voru næstum því búnar að kasta frá sér sigrinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Rebekka Rut Steingrímsdóttir heldur áfram að spila vel.
Íslenska landsliðskonan Rebekka Rut Steingrímsdóttir heldur áfram að spila vel. Vísir/Anton Brink

KR er komið upp fyrir Keflavík í Bónus-deild kvenna í körfubolta eftir eins stiga sigur á Hamar/Þór í Vesturbænum í kvöld, 85-84. KR-liðið var næstum því búið að henda frá sér sigrinum í lokin.

KR-konur enduðu tveggja leikja taphrinu sína og nýliðarnir eru komnir með sex sigra í fyrstu níu leikjum sínum.

KR er komið upp fyrir Keflavík en Keflavíkurkonur eiga leik sinn seinna í vikunni.

Hamar/Þór stóð í heimakonum í fyrri hálfleik en í þriðja leikhlutanum skildu leiðir. Staðan var 47-46 fyrir KR í hálfleik en var orðin 70-56 eftir þrjá leikhluta.

Hamar/Þór kom öflugt til baka í lokaleikhlutanum og náði að minnka muninn niður í eitt stig á lokasekúndunum.

Staðan var 83-70 þegar þrjár mínútur voru eftir en gestirnir unnu næstu mínúturnar 14-2. KR-liðið hélt út og fagnaði sigri

Stelpurnar af Suðurlandinu hafa enn ekki unnið leik í deildinni í vetur en þær hafa verið í mörgum jöfnum leikjum að undanförnu.

Íslenska landsliðskonan Rebekka Rut Steingrímsdóttir kom sjóðheit út úr landsliðsverkefni og skoraði 24 stig í kvöld.

Molly Kaiser var með 20 stig og Eve Braslis skoraði 13 stig. Kristrún Ríkey Ólafsdóttir var með 5 stig og 12 fráköst.

Jadakiss Guinn skoraði 21 stig fyrir gestina, Jovana Markovic skoraði 15 stig og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir var með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×