Innlent

Vilja senda mjög skýr skila­boð með lægri launa­hækkun

Árni Sæberg og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir segir einhug vera meðal ríkisstjórnarinnar um málið.
Katrín Jakobsdóttir segir einhug vera meðal ríkisstjórnarinnar um málið. Stöð 2/Arnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnina vilja senda skýr skilaboð til launafólks með því að draga úr launahækkun til æðstu stjórnenda. Einhugur sé um málið í ríkisstjórn.

Greint var frá því á dögunum að samkvæmt útreikningi Hagstofunnar myndu laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar hækka um 6 til 6,3 prósent þann 1. júlí næstkomandi. Þannig myndu laun forsætisráðherra til að mynda hækka um 156 þúsund krónur. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd og kallað var eftir því að ráðamenn myndu snúa henni við.

Nú hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ákveðið að svara kallinu með því að breyta lögum þannig að laun þingmanna og embættismanna hækki ekki um sex prósent um næstu mánaðarmót, heldur 2,5 prósent. Þetta er meðal aðgerða sem ríkisstjórnin ætlar í til að sporna gegn verðbólgu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við fréttastofu að með ákvörðuninni vilji ríkisstjórnin senda þjóðinni skýr skilaboð.

„Við gerum það auðvitað til þess að senda mjög skýr skilaboð til íslensks samfélags, um samstöðu með launafólki og skýr skilaboð um að við munum slá niður þessa verðbólgu. Þess vegna leggjum við til 2,5 prósenta hækkun, í staðinn fyrir sex prósenta hækkun, sem er þá í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans og þannig er það algjörlega tryggt að launahækkanir æðstu ráðamanna eru ekki að skapa verðbólguþrýsting,“ segir forsætisráðherra.

Einhugur innan stjórnarinnar

Katrín segir að einhugur hafi verið innan ríkisstjórnarinnar um tillögu um að lækka launahækkanir niður í 2,5 prósent. Hún hafi þegar fundað með formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi um tillöguna og segir að best væri að þeir gerðu grein fyrir afstöðu sinni. 

„Þetta var mjög gott samtal sem við áttum í morgun, ég held við séum öll sammála um að það sé mjög mikilvægt að við stígum inn í. Svo er bara spurning hvernig það verður útfært. Þetta er sú niðurstaða sem við komumst að og leggjum til,“ segir Katrín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×