Sport

Anníe flaug upp í annað sæti en var samt ekki best Ís­lendinganna

Sindri Sverrisson og Atli Arason skrifa
Anníe Mist Þórisdóttir er á góðri siglingu í Berlín.
Anníe Mist Þórisdóttir er á góðri siglingu í Berlín. mynd/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir er komin nálægt efsta sætinu eftir tvær greinar af sjö á undanúrslitamótinu í Berlín þar sem barist er um sæti á heimsleikunum í CrossFit í haust.

Ellefu farseðlar á heimsleikana eru í boði og sem stendur er Anníe Mist sú eina af íslensku konunum fjórum á mótinu sem er í hópi ellefu efstu.

Anníe var í 7. sæti eftir fyrstu grein en vann sig upp í 2. sæti í seinni grein dagsins. Keppendur þurftu þá að gera að gera fimm umferðir af æfingum í hringjum (1 toe-to-ring, 1 muscle-up, 1 ring dip), 20 hnébeygjur á öðrum fæti og svo eins margar burpees og tími gafst til á þremur mínútum. Eftir þrjár umferðir af þessu, með einnar mínútu hléi á milli, gilti svo heildarfjöldi burpees.

Anníe varð í 8. sæti í greininni með 45 endurtekningar, níu burpees á eftir Emmu Tall frá Svíþjóð sem vann greinina og er orðin efst í heildarkeppninni með 173 stig en Anníe er í 2. sæti með 161 stig.

Þuríður Erla Helgadóttir stóð sig best Íslendinganna í greininni, eftir að hafa verið í 52. sæti í fyrstu grein, náði 48 burpees og er nú í 19. sæti með 96 stig.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Sólveig Sigurðardóttir gerðu 28 burpees hvor og er Ragnheiður í 14. sæti með 104 stig en Sólveig í 29. sæti með 76 stig.

Fimm greinar eru eftir og sem stendur er hin ítalska Elisa Fuliano í 10. sæti með 131 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×