Sport

Snæfríður sló Íslandsmetið sitt á Möltu

Sindri Sverrisson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir hóf Smáþjóðaleikana á að setja Íslandsmet.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir hóf Smáþjóðaleikana á að setja Íslandsmet. SSÍ

Snæfríður Sól Jórunnardóttir vann til silfurverðlauna í 100 metra skriðsundi í dag á fyrsta verðlaunadegi Smáþjóðaleikanna á Möltu. Snæfríður kom í bakkann á 55,06 sekúndum og bætti Íslandsmetið sitt í greininni.

Fyrra met Snæfríðar var 55,18 sekúndur en hún hjó nærri því strax í undanrásum í morgun þegar hún synti á 55,40 sekúndum.

Kalia Antoniou frá Kýpur vann gullverðlaunin í greininni á 54,86 sekúndum. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir var nálægt því að taka verðlaun en hafnaði í 4. sæti á 57,25 sekúndum, á eftir bronsverðlaunahafanum Önnu Hadjziloizou frá Kýpur sem synti á 56,59 sekúndum.

Hin 15 ára Ylfa Lind Kristmannsdóttir vann silfur í 200 metra baksundi, á 2:20,16 mínútum.  Hin 17 ára Freyja Birkisdóttir fékk bronsverðlaun í 800 metra skriðsundi, á 9:17,16 mínútum. Kristín Hákonardóttir, 19 ára, fékk svo bronsverðlaun í 200 metra flugsundi en hún synti á 2:25,72 mínútum, en aðeins þrír keppendur voru skráðir til keppni í greininni.

Innan skamms lýkur svo keppni í 200 metra fjórsundi og 4x100 metra skriðsundi, karla og kvenna, en öll úrslit má finna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×