Það voru heimamenn í Jonava sem voru skrefi framar framan af í leiknum og þeir náðu mest átta stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Eftir að hafa verið sex stigum undir um miðjan annan leikhluta tóku Elvar og félagar hins vegar völdin og náðu að koma sér í forystu fyrir hálfleikhléið, staðan 41-43.
Gestirnir í Rytas bættu svo enn frekar í forystuna í þriðja leikhluta og leiddu með tíu stigum að honum loknum. Heimamenn voru í raun aldrei nálægt því að brúa það bil í lokaleikhlutanum og niðurstaðan varð 15 stiga sigur Rytas, 67-82.
Elvar Már var sem áður segir stigahæsti maður vallarins, en hann skoraði 15 stig fyrir gestina ásamt því að taka þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Rytas leiðir nú einvígið 2-0 og tryggir sér sæti í úrslitum með sigri gegn Jonava á heimavelli á fimmtudaginn.