Körfubolti

Strax uppselt á stórleikinn annað kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Það hefur verið óviðjafnanleg stemning á leikjum Vals og Tindastóls og það mun eflaust ekki breytast annað kvöld.
Það hefur verið óviðjafnanleg stemning á leikjum Vals og Tindastóls og það mun eflaust ekki breytast annað kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Áhuginn á einvígi Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta er engu minni í ár en þegar liðin börðust um titilinn í fyrra.

Valsmenn opnuðu í hádeginu fyrir miðasölu á þriðja leik liðanna, sem fram fer á Hlíðarenda annað kvöld, og nokkrum mínútum síðar var orðið uppselt.

Valsmenn höfðu gefið út að Tindastóll myndi sjá alfarið um sölu á sínum hluta miða, eða 30% þeirra miða sem eru í boði. Þeir miðar fóru í sölu í gær og að sögn Dags Þórs Baldvinssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Tindastóls, voru það um 700 miðar og seldust þeir strax upp. 

Bætti Dagur því við að eftirspurnin væri rosaleg eftir miðum, eins og reyndar má sjá á samfélagsmiðlum, og að eflaust væri hægt að selja þúsundir miða í viðbót.

Staðan í einvíginu er 1-1 eftir að Tindastóll fagnaði sigri á Hlíðarenda í fyrsta leik en meistarar Vals jöfnuðu metin á Sauðárkróki á þriðjudaginn.

Vinna þarf þrjá leiki til að landa titlinum og því er ljóst að liðin munu einnig mætast aftur í Síkinu á Sauðárkróki á mánudaginn, og mögulega í oddaleik á Hlíðarenda næsta fimmtudagskvöld.

Allir leikir í úrslitaeinvíginu eru sýndir á Stöð 2 Sport. Bein útsending frá Hlíðarenda hefst á morgun klukkan 18:45.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×