Körfubolti

„Úr þessu sjónarhorni finnst mér mjög sérstakt hvernig hann er að koma sér í burtu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hér má sjá Kristófer Acox koma sér frá Jordan Semple í þriðja leik Vals og Þórs í undanúrslitum Subway-deildar karla. Semple fór úr axlarlið og hefur ekki getað beitt sér síðan.
Hér má sjá Kristófer Acox koma sér frá Jordan Semple í þriðja leik Vals og Þórs í undanúrslitum Subway-deildar karla. Semple fór úr axlarlið og hefur ekki getað beitt sér síðan. Vísir/Stöð 2

Jordan Semple var heillum horfinn þegar Þór Þorlákshöfn tók á móti Val í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Subway-deildar karla í körfubolta í gær. Semple fór úr axlarlið eftir samskipti sín við Kristófer Acox í þriðja leik liðanna og gat augljóslega ekki beitt sér af fullum krafti í leik gærdagsins.

„Það er búið að kippa honum út. Menn hræddir við samkeppni, búið að kippa honum úr liðnum. Þessum leikmanni hjá Val er búið að takast sitt ætlunarverk, að fá aðeins að vaða uppi. Íslenskir dómarar verða aðeins að skoða það,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn í gær. Hann átti þar við Kristófer Acox og bætti við að dómaranefnd FIBA hafi metið þetta sem brottrekstrarvert atvik.

„Dómaranefnd mat þetta ekki svo alvarlegt. En það er víst annað hjá FIBA dómaranefndinni, þeir telja að þetta sé alvarlegt atvik og hann hefði átt að fá brottvísun.“

Sérfræðingar Körfuboltakvölds ræddu þetta atvik bæði fyrir og eftir leik í Þorlákshöfn í gær. Hermann Hauksson sagði að hann teldi atvikið ekki kalla á brottvísun, en viðurkenndi þó að þetta liti skringilega út.

„Ég skil Lalla mjög vel. Þetta er stórt atriði að missa þennan mann út og ég ítreka það sem ég sagði fyrir leikinn að úr þessu sjónarhorni finnst mér mjög sérstakt hvernig hann er að koma sér í burtu með því að toga þarna í hann,“ sagði Hermann eftir leikinn.

„Hitt sjónarhornið, þá sé ég ekkert eitthvað óvenjulega gróft atriði. Það er smá klemma þarna og þarna fer hann. Ég næ þessu ekki, en ég skil alveg gremjuna í Lalla og hann talar um að dómarar þurfi að stíga upp.“

„Ég sé þetta ekki sem brottrekstur, bara því miður. Ég sé það ekki alveg og mér finnst þetta allt of grá lína um það að það þurfi að setja hann í brottrekstur fyrir þetta. Maður hefur séð margt grófara en þetta, en ég ítreka að mér finnst myndbrotin sýna tvennt. Þó þetta sé sama atriðið þá sýna þau tvennt,“ sagði Hermann.

Eins og áður segir var þetta atvik til umræðu bæði fyrir og eftir leik og má sjá umræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Kristó vs Semple

Sigur Vals í gær þýðir að staðan í undanúrslitaeinvígi liðanna er jöfn, 2-2, og framundan er oddaleikur um sæti í úrslitum. Liðin mætast í Origo-höllinni annað kvöld klukkan 20:15 og verður leikurinn að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×