Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík 109-78 Tindastóll | Njarðvíkingar grípa í líflínu

Atli Arason skrifar
Logi Gunnarsson og félagar í Njarðvík fá annan leik.
Logi Gunnarsson og félagar í Njarðvík fá annan leik. VÍSIR/BÁRA

Njarðvíkingar halda sér á lífi í úrslitakeppninni Subway-deildar karla í körfubolta eftir 31 stiga stórsigur á Tindastól í Ljónagryfjunni í kvöld, 109-78. Sigur Njarðvíkinga var aldrei í hættu en heimamenn leiddu frá upphafi til enda.

Grænklæddir komu af fítonskrafti inn í leikinn í kvöld og voru augljóslega staðráðnir í því að láta ekki sópa sér úr leik. Njarðvík skoruði tíu stig í röð áður en gestirnir náðu að skora sitt fyrsta stig. Áfram héldu Njarðvíkingar að hamra járnið á meðan það var heitt þeim tókst að ná mesta forskoti sínu í fyrri hálfleik, 16 stig, þegar Haukur Helgi stelur boltanum og setur niður þrist strax í kjölfarið, þegar fyrsti leikhluti er rétt rúmlega hálfnaður.

Stólunum tókst þó örlítið að rétta af sinn hlut og minnka muninn hægt og rólega niður í níu stig áður fyrsti leikhluti var úti, 27-18.

Tindastóll sýndi baráttuvilja í öðrum fjórðung en þeim tókst mest að minnka muninn á milli liðanna niður í þrjú stig þegar Sigtryggur Arnar setti niður stökkskot um miðbik leikhlutans, 36-33. Aftur ná Njarðvíkingar þó að byggja upp forskot sem varð 15 stig áður en liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik, eftir þriggja stiga körfu fyrirliðans Loga Gunnarssonar en Logi kom inn með sprengju af varamannabekk Njarðvíkur.

Heimamenn koma inn í síðari hálfleik af sama kraft og þeir hófu þann fyrri. Fyrstu átta stig voru Njarðvíkur sem hélt bara áfram að bæta ofan á myndarlegt forskot sitt. Í stöðunni 70-45, þegar þriðji leikhluti var tæplega hálfnaður kom þó vendipunktur sem gæti reynst mikilvægur fyrir þetta einvígi í heild. Lisandro Rasio, sem var þá búinn að skora tvær körfur í röð, fékk skyndilega tvær tæknivillur á sömu sekúndu og var vikið úr húsi. Rasio sem var búinn að gera vel í sínu persónulega einvígi gegn Adomas Drungilas undir körfunni í gegnum leikinn sagði þá eitthvað við dómarana sem féll ekki vel í kramið og Rasio gæti því verið á leið í leikbann fyrir næsta leik í Síkinu á Sauðárkróki.

Brottreksturinn virtist þó ekki hægja á Njarðvíkingum sem unnu þriðja fjórðung með mesta mun af öllum leikhlutunum fjórum í kvöld, með 12 stigum. Staðan fyrir lokaleikhlutan var því 83-56.

Fjórði leikhluti var í raun og veru bara formsatriði sem Njarðvíkingar kláruðu einnig. Munurinn milli liðanna fór þá minnst niður í 23 stig áður en heimamenn bættu aftur í og luku leiknum með 31 stiga sigri, 109-78.

Afhverju vann Njarðvík?

Njarðvíkingar spiluðu agaðan og góðan varnarleik ásamt því að hitta á mjög góðan skotleik. Það gekk flest upp hjá heimamönnum í kvöld sem létu forskotið aldrei af hendi.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur Helgi Pálsson endaði stigahæstur allra með 20 stig en Mario Matasovic var með flest framlagstig eftir að hafa sett niður 13 stig, tekið 10 fráköst og gefið 5 stoðsendingar. Hjá Tindastóll var Keyshawn Woods stigahæstur með 16 stig.

Hvað gerist næst?

Njarðvíkingar nældu sér líflínu í þessu einvígi með sigrinum í kvöld en liðin munu mætast í fjórða sinn á Sauðárkróki næstkomandi laugardag.

„Við reynum að taka burt það besta úr öðrum liðnum“

Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls.Vísir/Hulda Margrét

„Þeir byrjuðu leikinn mjög vel og héldu þetta út, þeir komust á bragðið og voru að hitta vel og spila góða vörn. Eins og við vitum sjálfir í okkar liði að þá er miklu auðveldara að skjóta boltanum og spila góða vörn þegar þú ert 8, 10 eða 15 stigum yfir. Þeir bara náðu of fljótt í það og voru bara frábærir í kvöld,“ sagði Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik og bætti við að of margir í liði Njarðvíkur hafi hitt á sinn leik.

„Við reynum að taka burt það besta úr öðrum liðnum. Það besta í Njarðvíkurliðinu er að þeir eru margir góðir í körfubolta og í kvöld þá voru allir frábærir. Við þurfum að finna leiðir til að leyfa þeim nokkrum að vera góðum en ekki öllum.“

Pavel telur þetta 31 stiga tap ekki hafa mikil áhrif á sjálfstraust Tindastóls liðsins í framhaldinu.

„Við afgreiðum allar hæðir og allar lægðir á svipaðan hátt. Við getum auðvitað horft á þennan leik og tekið einstök atriði út og sagt þau vera léleg en það er af því að við erum að horfa á það með þeim augum að við töpuðum með 30 stigum. Við megum ekki gera það þannig. Ég tel að orkustigið hjá strákunum í kvöld hafi ekki verið minna en áður. Það er ekkert annað að fara að gerast í næsta leik hjá okkur, annað en það sama með einhverjum smá öðruvísi áherslum,“ sagði Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira