Körfubolti

Elvar skoraði níu í stórsigri | Naumt tap Tryggva og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson skoraði níu stig fyrir Rytas Vilnius í dag.
Elvar Már Friðriksson skoraði níu stig fyrir Rytas Vilnius í dag. FIBA

Elvar Már Friðriksson skoraði níu stig fyrir Rytas Vilnius er liðið vann öruggan 25 stiga sigur gegn Jonava í litháísku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag, 81-106. Á sama tíma máttu Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza þola naumt fjögurra stiga tap gegn Unicaja í spænsku deildinni, 70-74.

Elvar og félagar skoruðu fyrstu fimm stig leiksins gegn Jonava og liðið leiddi í raun allan leikinn. Rytas var með sex stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta og munurinn var kominn upp í 14 stig þegar fyrri hálfleik lauk, staðan 40-54.

Gestirnir í Rytas hleyptu heimamönnum svo aldrei almennilega inn í leikinni í síðari hálfleik og unnu að lokum öruggan 25 stiga sigur, 81-106.

Elvar skoraði níu stig fyrir Rytas í leik dagsins og tók auk þess tvö fáköst og gaf sjö stoðsendingar. Liðið situr nú í öðru sæti deildarinnar með 23 sigra í 29 leikjum, tveimur sigrum minna en topplið Zalgiris Kaunas.

Þá máttu Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza þola naumt fjögurra stiga tap gegn Unicaja í spænsku deildinni á sama tíma, 70-74.

Tryggvi skoraði átta stig fyrir Zaragoza, en liðið situr í 13. sæti deildarinnar með tíu sigra eftir 27 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×