Fótbolti

Blikar fá að vera gest­gjafar í for­keppninni

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik varð Íslandsmeistari með afar sannfærandi hætti í fyrra og leikur því í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar.
Breiðablik varð Íslandsmeistari með afar sannfærandi hætti í fyrra og leikur því í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar. vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks verða á heimavelli í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta karla í sumar, rétt eins og Víkingar voru á síðustu leiktíð.

Blikar munu berjast við landsmeistarana frá Svartfjallalandi, Andorra og San Marínó um eitt laust sæti í hinni eiginlegu undankeppni Meistaradeildarinnar.

Meistararnir í Andorra, Inter Escaldes, greina frá því á Twitter að búið sé að staðfesta að forkeppnin fari fram í Kópavogi dagana 27.-30. júní. Í tísti þeirra kemur fram að notast verði við myndbandsdómgæslu ef á þarf að halda.

Í Víkinni í fyrra vann Víkingur 1-0 sigur gegn Inter Escaldes í úrslitaleik forkeppninnar, eftir að hafa slegið út Levadia frá Eistlandi í undanúrslitum.

Aðeins lægst skrifuðu þjóðir Evrópuboltans þurfa að fara í gegnum forkeppnina til að komast í undankeppnina, en horft er til síðustu fimm leiktíða við útreikninga á stöðu þjóða. Vegna árangurs íslensku liðanna í Evrópuleikjunum í fyrra er nú þegar ljóst að næstu Íslandsmeistarar þurfa ekki að fara í forkeppnina á næsta ári.

Sigurliðið í forkeppninni í júní kemst í fyrstu umferð af fjórum í undankeppni Meistaradeildarinnar. Liðin sem detta út í forkeppninni fara beint í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×