Körfubolti

Bæði Njarð­vík og Valur geta unnið deildina í Ljóna­gryfjunni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá fyrri leik Vals og Njarðvíkur en Njarðvíkingar hafa ekki tapað síðan.
Frá fyrri leik Vals og Njarðvíkur en Njarðvíkingar hafa ekki tapað síðan. Vísir/Diego

Óopinber úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn í Subway deild karla fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld þegar Njarðvíkingar taka á móti Valsmönnum.

Liðin eru með jafnmörg stig en Valsmenn eru ofar á sigri í fyrri leik liðanna.

Bæði liðin geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina með sigri í kvöld.

Valsmönnum nægir að vinna leikinn til þess að verða deildarmeistarar.

Njarðvíkingar þurfa aftur á móti að vinna leikinn með fjórtán stigum til að verða deildarmeistarar í kvöld þar sem Valur vann fyrri leik liðanna með þrettán stigum (88-75).

Vinni Njarðvíkingar með minni mun þá verða þeir að vinna lokaleik sinn á móti Keflavík til að gulltryggja deildarmeistaratitil sinn.

Njarðvíkingar hafa unnið tíu deildarleiki í röð eða alla leiki sína síðan að þeir töpuðu fyrir Val á Hlíðarenda 16. desember síðastliðinn.

Valsmenn hafa sjálfir unnið fjóra leiki í röð og alls átta af tíu deildarleikjum síðan þeir unnu Njarðvíkinga í jólamánuðinum.

Leikur Njarðvíkur og Vals verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld en á undan verður bein útsending frá leik Stjörnunnar og Þórs úr Þorlákshöfn sem hefst klukkan 18.15. Subway Körfuboltakvöld hefst síðan strax á eftir seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×