Handbolti

Árni Bragi um Valsorðróminn: „Þetta kemur í ljós á næstu dögum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árni Bragi Eyjólfsson eftir bikarúrslitaleik Aftureldingar og Hauka.
Árni Bragi Eyjólfsson eftir bikarúrslitaleik Aftureldingar og Hauka. vísir/hulda margrét

Nýkrýndi bikarmeistarinn Árni Bragi Eyjólfsson segir að framtíð sín komi í ljós á næstu dögum.

Árni Bragi verður samningslaus eftir tímabilið og hefur verið orðaður við Íslandsmeistara Vals. Stefán Árni Pálsson spurði hann út í orðróminn í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar í dag.

„Ég hef af þessu en það sem ég get sagt um þetta er að þetta kemur allt í ljós á næstu dögum. Ég er ekki búinn að skrifa undir eitt eða neitt og er bara að skoða mín mál vel eins og menn á mínum aldri, 28 ára,“ sagði Árni.

„Ég er bara að skoða hvað er best fyrir mig og mína og hvar ég tel möguleikana á að góðir hlutir gerist. Slúðrið er búið að ganga of langt. Þetta kemur í ljós. Það er eina sem ég get sagt.“

Árni Bragi varð bikarmeistari með Aftureldingu um liðna helgi. Mosfellingar unnu þá Hauka í úrslitaleik Powerade-bikarsins, 27-28. Árni Bragi skoraði tvö mörk í leiknum.

Árni Bragi hefur leikið með Aftureldingu allan sinn feril ef frá er talið eitt tímabil með Kolding í Danmörku og eitt tímabil með KA. Hann var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar þegar hann lék með KA.

Í vetur hefur Árni Bragi skorað 96 mörk í átján leikjum í Olís-deildinni. Afturelding mætir KA fyrir norðan í 19. umferð deildarinnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×