Sport

Íþróttastjarna skólans auglýsti skólasvindl á Tik Tok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivia Dunne í keppni með fimleikaliði LSU.
Olivia Dunne í keppni með fimleikaliði LSU. Getty/Stew Milne

Bandaríska fimleikakonan Olivia Dunne er einnig stórstjarna á samfélagsmiðlum og nú lítur út fyrir að hún hafi verið að auglýsa ólöglega hjálp við heimanámið. Málið hefur skapað nokkra umræðu í Bandaríkjunum.

Gervigreindin er að læðast alls staðar inn og það gefur að skilja að margir latir námsmenn sjá þarna gott tækifæri til að sleppa við heimalærdóm.

Hin tvítuga fimleikakona Olivia Dunne kom sér í vandræði eftir að hún auglýsti gervigreindarforritið Caktus AI á samfélagsmiðlum. Hún er nemi í Louisiana State University og þarf að sinna náminu með því að vera á fullu í fimleikum og hala inn milljónir á samfélagsmiðlum.

Dunne setti inn myndband á Tik Tok þar sem hún talaði um gervigreindina.

„Ég þarf að koma sköpunargáfunni í gang áður en ég þarf að skila ritgerðinni minni á miðnætti,“ sagði Olivia Dunne á Tik Tok. Myndbandið fékk yfir milljón áhorf og fékk skólann hennar, Louisiana State University, til að grípa inn í.

Það er auðvitað hægt að beintengja notkun gervigreindar við svindl í skóla og skólinn gaf það sérstaklega út að krakkarnir í skólanum þyrftu að passa sig að gerast ekki sek um ritstuld.

„Það að nota gervigreind til að vinna fyrir sig heimavinnuna og leggja hana sína fram sem sína vinnu gæti kallað á refsingu fyrir misferli,“ skrifaði LSU í yfirlýsingu.

Áhrif Dunne eru náttúrulega gríðarleg. Hún er nefnilega með 7,3 milljónir fylgjenda á Tik Tok.

Dunne hefur af þeim sökum gert samninga við mörg fyrirtæki um að auglýsa vörur þeirra á miðlunum en nú virðist hún hins vegar hafa fengið of langt.

Hún hefur verið kölluð gullstelpan enda varð hún búin að vinna sér inn milljón Bandaríkjadala þegar hún varð átján þökk sé vinsældum sínum á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×