Sport

UFC staðfestir nýjan andstæðing Gunnars

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Nelson er kominn með nýjan andstæðing.
Gunnar Nelson er kominn með nýjan andstæðing. @ufceurope

Gunnar Nelson mun ekki keppa við Daniel Rodriguez á UFC-bardagakvöldinu í London 18. mars næstkomandi, eins og til stóð, en búið er að finna nýjan keppinaut fyrir Gunnar.

UFC hefur nú staðfest þessi tíðindi en Gunnar mun mæta Bryan Barberena í veltivigtarbardaga sem verður í aðalhluta bardagakvöldsins.

Gunnar hefur þurft að bíða í eitt ár eftir bardaga frá því að hann vann Takashi Sato, með dómaraákvörðun. Sato hafði einmitt komið inn í stað Claudio Silva og er Gunnar orðinn vanur því að skipt sé um mótherja fyrir hann skömmu fyrir keppni.

Barberena hafði unnið þrjá bardaga í röð þegar hann tapaði fyrir Rafael dos Anjos í desember eftir hengingartak. Rodriguez hafði einnig tapað síðasta bardaga, eftir fjóra sigra í röð, þegar hann tapaði gegn Neil Magny í nóvember.

Gunnar, sem er 34 ára, hefur unnið 18 bardaga en tapað fimm á sínum ferli á meðan að Barberena, sem er 33 ára, hefur unnið 18 en tapað níu.

Stærsti bardagi UFC 286 kvöldsins í London er á milli heimamannsins Leon Edwards og Nígeríumannsins Kamaru Usman þar sem Usman freistar þess að endurheimta veltivigtartitilinn af Edwards.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×