Körfubolti

„Þurfum að hitta meira en þremur af 26 til að hanga í Spán­verjum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Craig Pedersen, þjáfari íslenska karlalandsliðsis í körfubolta.
Craig Pedersen, þjáfari íslenska karlalandsliðsis í körfubolta. Vísir/Hulda Margrét

Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, gat verið nokkuð stoltur af sínu liði þrátt fyrir 19 stiga tap gegn heims- og Evrópumeisturum Spánar í kvöld. 

„Þeir voru mjög skilvirkir í sínum aðgerðum og refsuðu okkur þegar við reyndum mismunandi hluti varnarlega til að reyna að loka á þeirra sterkustu leikmenn. Þeir fundu lausnir, hvort sem það var að finna menn undir hringnum eða koma sér í opin þriggja stiga skot,“ sagði Craig Pedersen að leik loknum.

„Það var eins og það skipti ekki máli hvort þeir væru með opin skot eða með mann í sér, þeir settu þau samt niður. Spánverjarnir skutu mjög vel í kvöld og þegar við náðum að búa til opin skot fyrir okkur sjálfa þá vorum við ekki að setja þau niður til að halda leiknum í jafnvægi.“

Bæði Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Snær Hlinason töluðu um það eftir leik að íslenska liðið hefði dottið niður á þann hraða sem Spánverjarnir vildu spila leikinn. Craig var nokkuð sammála því, en segir þó að liðið hafi þurft að gera betur til að halda háu tempói.

„Til að við getum keyrt leikinn upp þurfum við að fá stöðvanir. Sérstaklega í upphafi leiks voru þeir að setja öll sín skot niður þannig að það er erfitt að keyra á þá þegar við þurfum alltaf að byrja á endalínunni.“

„En þeir eru sérfræðingar í að stjórna hraða leikja. Það voru nokkur augnablik í seinni hálfleik þar sem við náðum að losa okkur og búa til góðar stöður, en þeir eru mjög klókir í að stjórna því hvernig leikurinn er spilaður.“

Þá var skotnýting íslenska liðsins fyrir utan þriggja stiga línuna afleit í kvöld. Í þau skipti sem liðið náði að skapa sér góðar stöður voru skotin ekki að detta og liðið endaði leikinn með þrjá þrista úr heilum 26 tilraunum.

„Kannski er það bara af því að við erum að spila á móti liði sem spilar mjög fast og það getur tekið kraftinn úr skotunum. En það er jákvætt að við höfum þó verið að skapa okkur mikið af opnum skotum. Ég veit að einhver þeirra voru frekar þvinguð, en við sköpuðum samt mikið af opnum skotum. En eins og allir vita þurfum við að hitta meira en þremur af 26 til að hanga í liði eins og Spáni. Ekki spurning.“

Íslenska liðið náði í nokkur skipti að nálgast það spænska og minnka muninn niður í sex til sjö stig. Þá virtust Spánverjarnir hins vegar geta sett í næsta gír og náð aftur upp öruggu forskoti.

„Þetta  sýnir bara breiddina sem þetta lið hefur. Þeir eru ekki með NBA eða Euroleague-leikmennina sína, en þeir eru samt með ótrúlega sterkt lið. Þeir eru góðir á öllum sviðum leiksins og vel þjálfaðir. Þetta snýst um það að ef við viljum halda í við lið eins og þetta þurfum við að setja niður fleiri skot.“

Þá segir Craig að það sé margt jákvætt sem hann geti tekið úr þessum leik í leikinn mikilvæga gegn Georgíu.

„Það er auðvitað jákvætt að við séum að skapa okkur mikið af opnum skotum. Það er eitthvað sem við höfum alltaf talað um.“

„Þegar við skjótum vel getum við hangið í góðum þjóðum. En þegar við gerum það ekki þá munum við alltaf tapa með tuttugu stigum. Það er líka jákvætt við leikinn í kvöld að við getum spilað og haldið í við Spán þar til það voru kannski þrjár til fjórar mínútur eftir og á sama tíma náð að gefa nokkrum lykilmönnum smá hvíld. Það voru margir strákar sem fengu mínútur án þess að þeir væru útkeyrðir.“

Og að sjálfsögðu vonast Craig til að hafa sitt sterkasta lið til taks á sunnudaginn.

„Vonandi. Vonandi verða þeir sem gátu ekki verið með í kvöld klárir í slaginn því við þurfum á þeim að halda.“


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Ísland - Spánn 61-80 | Fínt veganesti í leikinn mikilvæga

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mátti þola 19 stiga tap er liðið tók á móti heims- og Evrópumeisturum Spánar í undankeppni HM í Laugardalshöllinni í kvöld. Lokatölur 61-80, en íslenska liðið mætir Georgíu ytra í mun mikilvægari leik næstkomandi sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×