Körfubolti

Baldur þjálfaði á mótinu þar sem stjörnurnar verða til

Sindri Sverrisson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson er þjálfari Ulm í Þýskalandi og stýrir þar U18-liði félagsins sem og þróunarliði þess sem spilar í þýsku 2. deildinni.
Baldur Þór Ragnarsson er þjálfari Ulm í Þýskalandi og stýrir þar U18-liði félagsins sem og þróunarliði þess sem spilar í þýsku 2. deildinni.

Körfuboltaþjálfarinn Baldur Þór Ragnarsson, sem stýrði Tindastóli til silfurverðlauna í Subway-deildinni í fyrra, varð um helgina fyrsti íslenski þjálfarinn til að fá að stýra liði á Euroleague Next Generation mótinu.

Mótið hefur farið fram frá árinu 2002 og á því spila 34 bestu körfuknattleikslið Evrópu í flokki 18 ára og yngri. Mótið fær mikla athygli og meðal annars fylgist mikill fjöldi útsendara NBA-félaga með. 

Íslenskir leikmenn hafa spilað á mótinu, í það minnsta Haukur Helgi Pálsson og Kristinn Pálsson, en Baldur er fyrstur íslenskra þjálfara til að stýra liði á mótinu.

Baldur hefur frá því síðasta sumar þjálfað bæði U18- og þróunarlið þýska félagsins Ratiopharm Ulm sem fékk boð á mótið. Liðið lék í átta liða móti í München og mætti sannkölluðum stórveldum eða U18-liðum Real Madrid, þýska liðsins Alba Berlín, ítalska liðsins Milan og gríska liðsins Panathinaikos.

Ulm náði að vinna einn sigur, 84-67 gegn Milan, en tapaði öðrum leikjum. Real Madrid vann riðilinn og komst áfram í keppninni. Hugo Gonzalez var valinn verðmætasti leikmaður riðilsins en hann skoraði 22 stig, tók þrjú fráköst og stal boltanum fjórum sinnum í 84-64 sigri gegn Zalgiris frá Litháen í úrslitaleiknum.

Leikið er í fjórum riðlum í Euroleague Next Generation og kemst sigurlið hvers þeirra áfram í 8-liða úrslit keppninnar, auk ríkjandi meistara Mega Mozzart frá Serbíu og þriggja liða sem fá sérstök boðsæti. Í 8-liða úrslitunum verður leikið í tveimur fjögurra liða riðlum og sigurvegarar riðlanna mætast svo í sömu höll og úrslitaleikur EuroLeague fer fram í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×