Sport

Ólympíumeistarinn mætti í of stórum fötum og var dæmdur úr keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Marius Lindvik sést hér í stökki sínu í Garmisch-Partenkirchen skíðastökkskeppninni um helgina.
 Marius Lindvik sést hér í stökki sínu í Garmisch-Partenkirchen skíðastökkskeppninni um helgina. AP/Matthias Schrader

Norski skíðastökkvarinn Marius Lindvik virtist byrja nýtt ár afar vel með lengsta stökkinu í undankeppninni í árlega nýársmótinu í Garmisch-Partenkirchen í Þýskalandi. Það breyttist hins vegar stuttu eftir stökkið.

Lindvik stökk 130,5 metra eða lengra en allir. Næstur var Þjóðverjinn Stephan Leyhe með stökk upp á 128 metra.

Stuttu eftir stökkið var hinn norski Lindvik dæmdur úr leik.

Ástæðan var að hann keppti í of stórum fötum.

Keppnisfatnaður skíðastökkvara er sá sami en stærðin er auðvitað mismunandi eftir stærð og gerð hvers og eins.

Lindvik var dæmdur úr leik fyrir að reyna að auka möguleika sína á svifi með því að keppa í of stórum fötum.

Mótshaldarar voru búnir að gefa það út að þeir yrðu mjög strangir á þessum búningareglum og stóðu heldur betur við þá hótun.

Hinn 24 ára gamli Marius Lindvik er stórstjarna í sportinu enda ríkjandi Ólympíumeistari frá því í Peking á síðasta ári þar sem hann vann gullið á hærri pallinum.

Norðmenn fögnuðu samt sem áður sigri í keppninni því landi hans Halvor Egner Granerud vann með stökki upp á 142 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×