Lífið samstarf

Maga- og mjaðmasveiflur í Kramhúsinu sameiningarafl

Kramhúsið
„Hér er allt svo mjúkt og hlýtt og hér er enginn að flexa fyrir framan speglana. Hér má fólk vera eins og það er og engin krafa um að vera einhver „betri“ útgáfa af okkur sjálfum."
„Hér er allt svo mjúkt og hlýtt og hér er enginn að flexa fyrir framan speglana. Hér má fólk vera eins og það er og engin krafa um að vera einhver „betri“ útgáfa af okkur sjálfum."

Íris Stefanía Skúladóttir og Þórdís Nadia Semichat kenna magadans og mjaðmasveifludansa í Kramhúsinu. Þær segja andrúmsloftið einstakt í húsinu og í dansinum myndist sérstök tenging milli kvenna.

„Magadans er miklu meira en eitthvað show. Hann er einn elsti dansinn sem dansaður er í sinni upprunalegu mynd og sögu hans má rekja allt til Forn-Egyptalands. Hann var dansaður af konum, með konum og fyrir konur, á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu. Þetta er frjósemisdans kvenna og á ekkert skylt við þá útfærslu sem við þekkjum úr í harem-búrum feðraveldisins,“ útskýrir Íris sem sjálf kynntist magadansi sem óöruggur unglingur og kolféll fyrir honum.

„Frænka mín var nýbyrjuð að æfa og ákvað að gefa fjölskyldumeðlimum dans inni í stofu. Hún mætir heim og dansar geggjaðan dans. Ég var 17 ára, óörugg og sjálfsmeðvituð um líkamann en dansinn gjörbreytti því hvernig ég upplifði sjálfa mig. Ég var snemma farin að kenna sjálf og nú er magadans mínar ær og kýr. Ég lít á magadans sem lýðheilsumál eins og að fara í sund og kem alltaf endurnærð úr tímum,“ segir Íris og leggur áherslu á að danssalurinn sé öruggt rými.

„Ég reyni að skapa andrúmsloft þar sem öllum líður vel. Þetta er öruggt rými til að vera og við dönsum þarna á okkar eigin forsendum. Þannig verður til eitthvert afl við að upplifa sig saman og séðar sem jafningja. Þetta er ofboðslega valdeflandi, “ segir Íris. Stemmingin í Kramhúsinu sé einstök og allt öðruvísi en í annarri líkamsrækt.

„Hér er allt svo mjúkt og hlýtt og hér er enginn að flexa fyrir framan speglana. Hér má fólk vera eins og það er og engin krafa um að vera einhver „betri“ útgáfa af okkur sjálfum, allir líkamar eru fullkomnir eins og þeir eru. Magadansinn er samt hörku púl, hann styrkir kjarnavöðvana, stoðkerfið og hryggjarsúluna. Við erum ekki að lyfta lóðum, allur styrkur er útfærður í hreyfiflæði og fólk renn svitnar í tímum,“ segir Íris en hún heldur úti instagram síðu þar sem fylgjast má með magadansinum í Kramhúsinu. Þá eru fleiri námskeið á döfinni tengd dansinum.

„Magadansinn er nátengdur kynverunni og frjóseminni og ég hef haldið námskeið sem hét Kynveran. Það verður að öllum líkindum aftur á dagskrá í vor,“ segir Íris.

En virkar magadansinn í alvörunni á frjósemina?

„Það hafa ekki verið gerðra margar rannsóknir á því en dansinn hefur margsannað sig. Ég er sjálf nýkomin úr fæðingarorlofi og þarf að passa mig svo mikið að verða ekki ólétt strax aftur, ég var nefnilega ekki að reyna það síðast. Það fyndna er að við Þórdís Nadía erum báðar í þessum mjaðmadönsum og hún er líka nýkomin úr fæðingarorlofi,“ segir Íris hlæjandi en Þórdís Nadia kennir námskeiðið Hips don´t Lie eða mjaðmirnar ljúga ekki.

Tilfinningar búa í mjöðmunum

„Ég bjó Hips Don’t Lie námskeið til með það í huga að liðka stirðar mjaðmir. Það er svo margt töfrandi við mjaðmirnar en ég trúi því að við geymum ákveðnar tilfinningar þar sem þarf að losa um,“ útskýrir Þórdís Nadia. Hún segir danstímana kröftuga og sækir innblástur í hip hop og afró.

„Minn bakgrunnur í dansi kemur úr hip hop, afró, salsa og magadansi. Hips don´t Lie eru dansbrennslutímar þar sem ég blanda saman ólíkum stílum sem hita upp og mýkja líkamann á sama tíma. Ég nota tónlist aðallega frá Afríku og Karabíska hafinu svona í takt við hitann en

ég er mjög víðsýn þegar það kemur að dansi og finnst erfitt að halda mig einungis við einn stíl. Fyrir nokkrum árum bjó ég í New York en þar stundaði ég nám í handritsgerð fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Samhliða því var ég í jóga, afró-haitian dönsum, Kutiro dans frá Senegal og afrobeat,“ útskýrir Þórdís en námskeiðið verður einmitt samblanda af þessu öllu.

„Allir þessir dansar eiga það sameiginlegt að gefa þér mikla orku og láta þig dansa eftir hjartslættinum. Með þessu námskeiði vonast ég til þess að geta hjálpað öðru fólki að opna mjaðmirnar betur en ekki má gleyma að þetta námskeið verður aðallega skemmtilegt. Ég mun leiða nemendur áfram í orku og hressleika. Það verður mikið svitnað, mikið púl og alveg sjúklega skemmtileg tónlist. Ég mun ekkert vera að ræða mikið alvarleika mjaðmanna heldur leiði ég nemendur áfram til þess að opna sig líkamlega,“ segir Nadia og Kramhúsið sé einmitt staðurinn til þess að opna sig á.

„Kramhúsið er einstakur staður og er ég nokkuð viss um að hver einasta manneskja sem hefur stigið fæti þarna inn segi það sama. Það er mikil kvenorka í húsinu og að mínu mati þá hefur andi Kramhússins heilandi áhrif á mann. Bæði kennarar og nemendur eru á öllum aldri, stærðum, gerðum og uppruna, af því í litla Kramhúsinu er pláss fyrir alla og allir fá að vera eins og þeir eru. Það þarf enginn að setja sig í stellingar.“

Skráning á námskeiðin er hafin en þau hefjast í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×