Skoðun

Aðventuflóra

Starri Heiðmarsson skrifar

Í aðdraganda jóla sprettur fram sérstök flóra á heimilum landsmanna sem kalla mætti aðventuflóru. Öll er hún aðflutt enda býður húsnæði okkar ekki upp á búsvæði þar sem sjálfsprottin flóra fær þrifist (nema við þær óæskilegu kringumstæður þegar raki býður myglusveppum aðstæður til vaxtar, reyndar er þar um fungu að ræða sbr. fyrri grein). Aðventuflóran samanstendur af ýmsum æðplöntum sem venju samkvæmt prýða heimili á þessum dimmasta tíma ársins. Nefna má goðalilju (Hyacinthus orientalis), jólastjörnu (Euphorbia pulcherrima) að ónefndum hópnum sem sameiginlega er nefndur ”jólatré” og samanstendur af ýmsum tegundum barrtrjáa.

Allar eiga umræddar plöntutegundir það sameiginlegt að tilheyra plönturíkinu og því eðlilegt að vísa til þeirra sem flóru. Flóra var blómagyðja Rómverja til forna og er hugtakið notað til að vísa til plantna á ákveðnu svæði eða ákveðnu jarðsögutímabili. Sömuleiðis vísar flóra til bóka sem fjalla um plöntur og lýsa þeim.

Flóra vísar hins vegar ekki sérstaklega til fjölbreytni þótt vissulega geti flóra ákveðinna svæða eða tegundahópa verið fjölskrúðug. Sá misskilningur virðist til staðar hjá mörgum að hugtakið flóra vísi til fjölbreytni og hugtakið notað sem lýsingarorð. Þannig hef ég tekið eftir „bókaflóru“, „veitingahúsaflóru“ (gæti hugsanlega átt við um veitingastaði sem bjóða jurtafæði) og jafnvel „mannflóru“ sem lýsir fullkomnu skilningsleysi á merkingu hugtaksins enda tilheyrum við menn (Homo sapiens) dýraríkinu og því réttara að vísa til okkar sem fánu.

Gætum að tungutaki okkar og misbeitum ekki vel þekktum hugtökum svo rétt merking þeirra týnist.

Höfundur er grasafræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×