Körfubolti

Álfta­nes styrkti stöðu sína á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Álftanes er á blússandi siglingu.
Álftanes er á blússandi siglingu. Álftanes

Álftanes vann stórsigur á Ármanni í eina leik dagsins í 1. deild karla í körfubolta, lokatölur 115-81. Álftanes er með afgerandi forystu á toppi deildarinnar en liðið hefur unnið 12 af 13 leikjum sínum til þessa.

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn en lærisveinar Kjartans Atla Kjartanssonar stigu harkalega á bensíngjöfina í öðrum leikhluta og skildu gestina eftir í ryki. Staðan í hálfleik var 59-42 heimaliðinu í vil.

Í upphafi síðari hálfleiks gerðu Álftnesingar út um leikinn þegar þeir skoruðu 37 stig gegn 17 hjá gestunum. Þó leikmenn Ármanns hafi klórað aðeins í bakkann í fjórða og síðasta leikhluta leiksins var það ekki nóg og Álftanes vann sannfærandi 34 stiga sigur, lokatölur 115-81.

Dúi Þór Jónsson og Srdan Stojanovic voru stigahæstir hjá heimamönnum með 21 stig. Dúi Þór gaf einnig 11 stoðsendingar. Illugi Steingrímsson var stigahæstur hjá Ármanni með 20 stig.

Álftanes er á toppi deildarinnar með 24 stig á meðan Ármann er í 6. sæti með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×