Umfjöllun og viðtöl: Keflavík-Njarðvík 103-97 | Keflavíkurkonur unnu baráttuna um Reykjanesbæ

Jakob Snævar Ólafsson skrifar
Keflvíkingar eru á leið í undanúrslit VÍS-bikars kvenna.
Keflvíkingar eru á leið í undanúrslit VÍS-bikars kvenna. Vísir/Bára

Nágrannaliðin og erkifjendurnir í Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík, mættust í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í Blue-höllinni fyrr í kvöld þar sem Keflvíkingar höfðu að lokum betur eftir tvíframlengdan leik, 103-97.

Leikurinn var mjög jafn allan tímann og liðin skiptust á að hafa forystu. Njarðvík var yfir í hálfleik 44-46. Spennan hélt áfram í seinni hálfleik og að honum loknum var jafnt 80-80 og því var framlengt. Í lok framlengingarinnar var enn jafnt 90-90 og því var framlengt aftur. Í síðari framlengingunni var meiri orka eftir á tanknum hjá Keflvíkingum og þær sigu fram úr að lokum og unnu leikinn 103-97. Keflvíkingar keppa í undanúrslitum bikarsins í janúar næstkomandi en Njarðvík er úr leik.

Njarðvík byrjaði betur en Keflavík náði tökum á leiknum þegar líða fór á fyrsta leikhluta. Eftir hann var Keflavík með forystu 22-14. Í öðrum leikhluta var Keflavík lengi vel með yfirhöndina en eftir að Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur tók leikhlé fóru Njarðvíkingar að ná yfirhöndinni á ný. Skotin þeirra fóru að detta betur en Bríet Sif Hinriksdóttir er besta dæmið um það. Hún hitti úr engu af þremur þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta en öllum sínum fjórum í öðrum leikhluta. Hún var stigahæst á vellinum í hálfleik með sextán stig.

Í seinni hálfleik voru Keflvíkingar lengst af með frumkvæðið. Aliyah Collier náði að jafna fyrir Njarðvík þegar tæp hálf mínúta var eftir og meira var ekki skorað. Staðan 80-80 og því farið í framlengingu. Eftir því sem leið á seinni hálfleik og þegar fram var komið í framlenginguna tók Aliyah Collier enn meiri byrðar á sig fyrir Njarðvíkinga. Hún þurfti að taka að sér leikstjórnandahlutverkið vegna meiðsla Raquel Laneiro. Collier tók samt flest skotin og var stigahæst með þrjátíu og fjögur stig, stoðsendingahæst með fjórtán og frákastahæst með tuttugu og sex. Sem sagt þreföld tvenna. Bríet Sif endaði næst stigahæst í liði Njarðvíkur en náði aðeins að skora tvö stig eftir hálfleik. Isabella Ósk Sigurðardóttir bætti það upp að einhverju leyti með því að skora fleiri stig og taka fleiri fráköst eftir hálfleik.

Keflvíkingar náðu að dreifa byrðunum með jafnari hætti. Karina Konstantinova leiddi stigaskorið allan leikinn en Daniela Morillo sem er oftar í því hlutverki var í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn en tók flest fráköst og var með flesta framlagspunkta. Birna Valgerður Benónýsdóttir var næst stigahæst. Það munaði minna á framlagi þessara þriggja en munaði á framlagi þriggja bestu leikmanna Njarðvíkur í leiknum.

Það hversu mikið Njarðvíkingar treystu á Aliyah Collier átti eflaust sinn þátt í að Keflvíkingar náðu loks að sigla fram úr. Í fyrri framlengingunni var Njarðvík með yfirhöndina lengst af en Agnes María Svansdóttir jafnaði fyrir Keflavík þegar fimm sekúndur voru eftir. Collier hefði getað tryggt Njarðvík sigur en hitti ekki úr síðasta skotinu. Staðan var enn jöfn 90-90 eftir þessa fyrri framlengingu og í þeirri seinni náði Keflavík að klára leikinn. Þær stálu boltanum nokkrum sinnum og það gerði á endanum útslagið. Keflavík náði að halda meiri ákefð í varnarleiknum út allan leikinn og stela boltanum mun oftar en Njarðvíkingar. Lokatölur voru því 103-97 fyrir Keflavík.

Af hverju vann Keflavík?

Vegna meiri breiddar og aðeins meiri krafts í varnarleiknum. Aliyah Collier þurfti að bera liðið í auknum mæli uppi eftir því sem leið á leikinn. Hlutverk hennar var enn meira en venjulega, vegna meiðsla Raquel Laneiro. Ungir og reynslulitlir leikmenn þurftu að axla meiri byrðar en oft áður í Njarðvíkurliðinu. Keflvíkingar gátu hins vegar treyst á meira framlag frá fleiri reyndari leikmönnum. Þær náðu að verjast af meiri krafti sérstaklega í seinni framlengingunni. Njarðvíkingar töpuðu á endanum boltanum tuttugu og þrisvar sinnum en Keflvíkingar tólf sinnum. Að tapa boltanum tvöfalt oftar en andstæðingurinn getur reynst ansi dýrkeypt.

Hverjar stóðu upp úr?

Í liði Keflavíkur stóðu upp úr í fyrsta lagi Karina Konstantinova, sem var stigahæst með tuttugu og átta stig. Daniela Morillo, tók sautján fráköst, skoraði tuttugu og tvö stig og var með flesta framlagspunkta. Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði tuttugu og þrjú stig og tók sjö fráköst. Þessar þrjár stóðu upp úr í liði Keflavíkur.

Í liði Njarðvíkur og af einstökum leikmönnum á vellinum stóð Aliyah Collier tvímælalaust upp úr með þrefalda tvennu. Þrjátíu og fjögur stig, tuttugu og sex fráköst og fjórtán stoðsendingar.

Stuðningsmenn beggja liða fá sérstakt hrós fyrir að mæta vel og halda uppi góðri stemmningu allan leikinn.

Hvað gekk illa?

Það er ósanngjarnt að segja að Njarðvík hafi gengið illa að sækja á vörn Keflvíkinga í ljósi þess að leikurinn var tvíframlengdur þrátt fyrir að meiðsli hafi herjað á Njarðvíkinga og þær haft færri leikmenn til að treysta á. Að tapa boltanum tvöfalt oftar en hitt liðið getur hins vegar riðið baggamuninn í eins jöfnum leik og þessum. Tapaðir boltar er sá þáttur leiksins sem gekk verst hjá Njarðvíkingum og reyndist þeim líklega dýrkeyptastur.

Hvað gerist næst?

Í VÍS-bikarnum gerist það næst að Keflavík keppir til undanúrslita 10. janúar á komandi ári. Næstu leikir liðanna eru í Subway deildinni þann 14. desember. Þá sækir Keflavík Grindavík heim en Njarðvík mætir Haukum á heimavelli sínum í Ljónagryfjunni.

Hörður Axel: Ég var alltaf að bíða eftir að orkan hennar kláraðist

Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhálmssoner þjálfari Keflavíkurliðsins.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var að vonum ánægður með að slá Njarðvík út úr VÍS bikarnum eftir tvíframlengdan leik. Hann var fyrst spurður að því í viðtali við Vísi eftir leik hvort að leikáætlun Keflavíkur hafi gengið algjörlega upp.

„Nei, algjörlega ekki.“

Keflvíkingar vissu eins og aðrir af meiðslum Lavinia Da Silva, miðherja Njarðvíkinga, og höfðu skipulagt leik sinn í samræmi við það en settu leik sinn upp miðað við að leikstjórnandi Njarðvíkur, Raquel Laneiro, yrði með í leiknum. Þeir fréttu hins vegar fyrst af því fyrr í dag að hún yrði ekki með vegna meiðsla.

„Það var svolítið erfiðara að búa sig undir hvað var að koma.“

Hörður játaði því að Keflvíkingar hefðu lagt mesta áherslu á að stöðva stigahæsta leikmann Njarðvíkur í vetur, Aliyah Collier, og enn þá frekar eftir meiðsli Raquel Laneiro. Collier átti þó sannkallaðan stórleik og var með þrefalda tvennu.

„Hún var samt sem áður gjörsamlega stórkostleg hérna í dag og er bara stórkostleg í körfubolta. Hún var kannski meira með boltann í höndunum en vanalega sem gerir hana kannski ennþá hættulegri líka. Ég var alltaf að bíða eftir að orkan hennar kláraðist en hún virtist ekkert klárast.“

Keflavíkurliðið hefur fengið hrós frá körfuboltasérfræðingum fyrir að sýna mikla ákveðni og ákefð í leikjum sínum og spila mjög stífan varnarleik. Eftir tapleik á móti Val fyrir viku talaði Hörður um að í leik liðsins væri lögð mikil áhersla á samvinnu sem hefði ekki gengið nægilega vel í þeim leik. Fyrir þennan leik lagði hann áherslu á við leikmenn sína að halda áfram á sömu braut í ákveðni og ákefð og að hafa samvinnuna í lagi.

„Það er það sem við viljum standa fyrir. Mjög aggresívan og agaðan varnarleik þótt það líti stundum út fyrir að við séum ekki agaðar. Flest allt sem við gerum varnarlega er af einhverri ástæðu.“

Hörður vildi hrósa Njarðvíkurliðinu fyrir frammistöðu sína í leiknum.

„Þær missa út tvær af byrjunarliðsmönnunum hjá sér og eru samt mjög góðar hérna í dag. Á sama tíma hjá okkur er helling sem við getum gert betur þótt við höfum unnið leikinn. Maður er samt sáttastur við það af því í bikarkeppninni er bikarinn það eina sem skiptir máli en samt sem áður er fullt sem við getum lagað og gert betur.“

Anna Ingunn: Þetta eru leikirnir sem við viljum spila

Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 16 stig fyrir Keflavík í kvöld.Vísir/Bára Dröfn



Anna Ingunn Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, skoraði sextán stig í leiknum og var að vonum ánægð eftir hinn torsótta sigur á nágrönnunum í Njarðvík. Hún var sammála því að tækifærið til að taka þátt í leikjum eins og þessum, jöfnum nágrannaslögum með tilheyrandi stemmningu í húsinu ætti sinn þátt í að hún ákvað að leggja körfuboltann fyrir sig.

„Það er geggjað að fá að taka þátt í svona leikjum. Þetta eru leikirnir sem við viljum spila. Þetta er ógeðslega gaman.“

Hún var ánægð með eigin frammistöðu og frammistöðu liðsins.

„Mér fannst við koma vel stemmdar inn í þennan leik. Við töpuðum á móti Val en mættum í þennan leik ákveðnar og ætluðum að gera þetta saman.“

Anna Ingunn svaraði þeirri spurningu játandi hvort Keflavíkurliðið ætlaði ekki að halda áfram að mæta jafn ákveðnar og harðar í hvern einasta leik.

„Það er alltaf markmiðið að koma þannig inn í alla leiki.“

Bríet Sif: Þótt við höfum tapað þá er ég drulluánægð með liðið mitt

Bríet Sif Hinriksdóttir var næst stigahæst Njarðvíkurkvenna með 18 stig.

Bríet Sif Hinriksdóttir, leikmaður Njarðvíkur, var næst stigahæst í liðinu með átján stig og var að vonum svekkt eftir hið nauma tap gegn Keflavík. Hún var sammála því að tækifærið til að taka þátt í nágrannaslögum þessara liða ætti mikinn þátt í af hverju hún og fleiri leikmenn hefðu upphaflega farið að æfa körfubolta.

„Þetta er nánast ástæðan fyrir því af hverju maður er í þessu. Þegar maður var yngri að horfa á þessa leiki þá voru þetta skemmtilegustu leikirnir.“

Þegar talið barst að leiknum í kvöld var Bríet óánægð með tapið en samt ánægð með frammistöðu liðsins.

„Þótt við höfum tapað þá er ég drulluánægð með liðið mitt. Okkur vantar tvo byrjunarliðsmenn og svo meiðir Isabella sig. Samt erum við að halda þessu í sterkum leik og svo er ég ógeðslega montin af ungu leikmönnunum okkar, Lovísu og Kristu, sem voru að koma inn og eru ekki vanar að spila svona svakalega mikið. Það fer mikið í reynslubankann fyrir þær.“

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur framan af og sama má segja um skotnýtingu Bríetar sem hitti vel í fyrri hálfleik en síður í þeim seinni.

„Maður gerir sitt besta fyrir liðið sitt. Stundum dettur þetta ofan í og stundum ekki. Ég var að hitta vel í fyrri hálfleik og svo treystir maður á að sú næsta komi og geri sitt. Það er ekki þannig að ein manneskja geri allt. Það þurfa allar að henda í púkkið. Það gerðu það allar í kvöld og leiðinlegt að þetta hafi farið svona.“

Bríet hlaut sitt körfuboltauppeldi í Keflavík en fannst það ekkert öðruvísi tilfinning að tapa með Njarðvík fyrir Keflavík.

„Nei, hjarta mitt er grænt. Ég bý í Njarðvík og er búinn að vera þar nokkuð lengi. Mér hefði fundist það fyrir nokkrum árum en ekki í dag. Mér þykir vænt um þennan klúbb. Þau eru frábær.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira