Körfubolti

Hjalti Þór: Þetta er kannski það besta sem við höfum sýnt

Sverrir Mar Smárason skrifar
Hjalti Þór fer yfir næstu mínútur með liði sínu í leikhléi í leiknum í kvöld.
Hjalti Þór fer yfir næstu mínútur með liði sínu í leikhléi í leiknum í kvöld. Visir/ Diego

Keflavík vann mjög öruggan 25 stiga sigur á Íslandsmeisturum Vals í Subway deild karla í körfubolta í kvöld. Hjalti Þór, þjálfari Keflavíkur, var mjög ánægður með sigurinn.

„Mér fannst við spila bara fanta vel og gerðum í rauninni það sem við ætluðum að gera. Gerðum það þokkalega vel, varnarleikurinn heilt yfir góður og náðum að stýra svolítið Kára og Pablo sem við lögðum upp með. Það var bara frábært hvernig menn kláruðu það,“ sagði Hjalti um leik sinna manna.

Keflavík spilaði góða vörn í leiknum, þvingaði Val mikið í erfið þriggja stiga skot sem þeir klikkuðu á ásamt því að gestirnir rústuðu frákastabaráttunni 48-25.

„Já, en fyrri hlutann af leiknum þá voru þeir að taka sóknarfráköst en svo skrúfuðum við fyrir það. Þá svona gekk þetta betur og við fengum að setja pressu á vörnina þeirra strax. Þá vorum við bara fanta flottir,“ sagði Hjalti.

Valur var fyrir leikinn eitt á toppi deildarinnar og hafði ekki tapað í sex leikjum í röð. Keflavík jafnaði Val að stigum í kvöld en þrátt fyrir að útlitið sé bjart þá vildi Hjalti Þór setja smá varnagla á hlutina.

„Þetta er nú bara einn leikur, verum aðeins rólegir. Við höfum ekkert verið frábærir í vetur og þetta er kannski það besta sem við höfum sýnt. Vonandi bara meira af þessu, maður veit aldrei. Það getur verið að menn haldi að þeir séu eitthvað voða góðir núna og haldi að þetta verði eitthvað létt í framhaldinu. Menn þurfa að halda sér á jörðinni og bæta sig leik frá leik. En bara virkilega flott. Nú bara njótum við í kvöld og svo bara fókus á morgun á næsta leik,“ sagði Hjalti að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×