Þar með er ljóst að Haukum dæmist 20-0 sigur í leiknum en þeir kærðu úrslit leiksins eftir að í ljós kom að á einum tímapunkti í þriðja leikhluta, þegar Haukar áttu tvö vítaskot, voru fjórir erlendir leikmenn Tindastóls innan vallar á sama tíma.
Það er brot gegn reglum KKÍ sem tóku gildi í sumar sem segja til um að að hámarki þrír erlendir leikmenn megi vera innan vallar í hvoru liði hverju sinni, bæði í deildar- og bikarleikjum í meistaraflokki.
Það verður því lið Hauka sem sækir Njarðvík heim í 16-liða úrslitum VÍS-bikarsins, og sigurliðið úr þeirr viðureign mun svo sækja Keflavík heim í 8-liða úrslitum. Ekki er ljóst hvenær leikirnir verða en aðrir leikir í 8-liða úrslitum fara fram 11. og 12. desember.
Forráðamenn bæði Hauka og Tindastóls hafa sagt að viðurlögin við vægu broti á reglu um erlenda leikmenn, líkt og í tilfelli Tindastóls, séu of ströng en í niðurstöðu áfrýjunardómstóls er bent á að samkvæmt reglunum skipti engu máli hvort eða hve mikil áhrif brot á þeim hafi á úrslit leiks. Brot leiði sjálfkrafa til viðurlaga.
Þá bendir áfrýjunardómstóll jafnframt á það að KKÍ geti í sambærilegum málum ákveðið, án aðkomu aga- og úrskurðarnefndar, að beita sektarákvæðum og breyta úrslitum leikja. Félög sem beitt eru slíkri refsingu geti hins vegar kært slíka ákvörðun.