Körfubolti

Loksins endanleg niðurstaða í máli Tindastóls og Hauka

Sindri Sverrisson skrifar
Hilmar Smári Henningsson var að taka vítaskot þegar Tindastóll var óvart með fjóra erlenda leikmenn innan vallar.
Hilmar Smári Henningsson var að taka vítaskot þegar Tindastóll var óvart með fjóra erlenda leikmenn innan vallar. Skjáskot/RÚV

Áfrýjunardómstóll KKÍ hefur staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar KKÍ í málinu sem varðar bikarleik Tindastóls og Hauka í körfubolta karla.

Þar með er ljóst að Haukum dæmist 20-0 sigur í leiknum en þeir kærðu úrslit leiksins eftir að í ljós kom að á einum tímapunkti í þriðja leikhluta, þegar Haukar áttu tvö vítaskot, voru fjórir erlendir leikmenn Tindastóls innan vallar á sama tíma.

Það er brot gegn reglum KKÍ sem tóku gildi í sumar sem segja til um að að hámarki þrír erlendir leikmenn megi vera innan vallar í hvoru liði hverju sinni, bæði í deildar- og bikarleikjum í meistaraflokki.

Það verður því lið Hauka sem sækir Njarðvík heim í 16-liða úrslitum VÍS-bikarsins, og sigurliðið úr þeirr viðureign mun svo sækja Keflavík heim í 8-liða úrslitum. Ekki er ljóst hvenær leikirnir verða en aðrir leikir í 8-liða úrslitum fara fram 11. og 12. desember.

Forráðamenn bæði Hauka og Tindastóls hafa sagt að viðurlögin við vægu broti á reglu um erlenda leikmenn, líkt og í tilfelli Tindastóls, séu of ströng en í niðurstöðu áfrýjunardómstóls er bent á að samkvæmt reglunum skipti engu máli hvort eða hve mikil áhrif brot á þeim hafi á úrslit leiks. Brot leiði sjálfkrafa til viðurlaga. 

Þá bendir áfrýjunardómstóll jafnframt á það að KKÍ geti í sambærilegum málum ákveðið, án aðkomu aga- og úrskurðarnefndar, að beita sektarákvæðum og breyta úrslitum leikja. Félög sem beitt eru slíkri refsingu geti hins vegar kært slíka ákvörðun.


Tengdar fréttir

Íhuga að breyta reglum í miðri keppni en enga kæru þarf til

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, segir mögulegt fyrir sambandið að breyta reglum í miðri keppni. Hins vegar þurfi enga kæru til. Kallað hefur verið eftir vægari viðurlögum við brotum á reglum um fjölda erlenda leikmanna, eftir bikarleik Tindastóls og Hauka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×