Körfubolti

Boston besta liðið um þessar mundir | LeBron sneri aftur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jayson Tatum er illviðráðanlegur þessa dagana.
Jayson Tatum er illviðráðanlegur þessa dagana. Boston Celtics

Gott gengi Boston Celtics í NBA deildinni í körfubolta hélt áfram í nótt þegar liðið lagði Sacramento Kings að velli. LeBron James sneri aftur í lið Los Angeles Lakers sem vann einnig öruggan sigur.

Alls fóru 14 leikir fram í deildinni í nótt og því af nægu að taka. Boston Celtics er besta lið deildarinnar um þessar mundir með 15 sigra og aðeins fjögur töp í fyrstu 19 leikjum tímabilsins. Boston vann 18 stiga sigur á Sacramento í nótt, lokatölur 122-104.

Celtics voru frábærir í fyrsta leikhluta en slökuðu á klónni í öðrum og þurftu að hafa fyrir hlutunum í síðari hálfleik. Kóngarnir átti fá svör við frábærum varnarleik Boston og var sigurinn á endanum nokkuð þægilegur.

Jayson Tatum og Jaylen Brown voru að venju allt í öllu hjá Boston. Tatum með 30 stig og Brown með 25 stig. Hjá Kings var De‘Aaron Fox með 20 stig á meðan Domantas Sabonis skoraði 18 stig og tók 10 fráköst.

LeBron James sneri aftur í lið Los Angeles Lakers sem virðist vera að rétta úr kútnum þrátt fyrir tap gegn Phoenix Suns í síðasta leik. Patrick Beverley var ekki með liðinu í nótt eftir að vera hent úr húsi gegn Suns. Það kom ekki að sök þó svo að Lakers hafi eins og svo oft áður verið ömurlegir í þriðja leikhluta, lokatölur 105-94.

Anthony Davis hélt áfram að spila eins og sá sem valdið hefur, hann skoraði 25 stig og tók 15 fráköst. LeBron James – sem hafði misst af síðustu leikjum liðsins vegna meiðsla - skoraði 21 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Giannis Antetokounmpo skoraði 38 stig í öruggum sigri Milwaukee Bucks á Cleveland Cavaliers, lokatölur 117-102. Donovan Mitchell skoraði 29 stig fyrir tapliðið.

Stephen Curry skoraði 33 stig á meðan Andrew Wiggins og Klay Thompson skoruðu 20 stig hvor þegar Golden State Warriors vann ellefu stiga sigur á Utah Jazz, 129-118. Lauri Markkanen var með 24 stig í liði Jazz. Þar á eftir komu Kelly Olnyk og Jordan Clarkson með 21 stig hvor en Clarkson gaf einnig 10 stoðsendingar.

Jeremi Grant skoraði 44 stig í 132-129 sigri Portland Trail Blazers á New York Knicks í framlengdum leik. Anfernee Simons skoraði 38 stig í liði Portland en Jalen Brunson var stigahæstur hjá Knicks með 32 stig.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 30 stig þegar Oklahoma City Thunder lagði Chicago Bulls í framlengdum leik, 123-119. DeMar DeRozan skoraði 30 stig í liði Bulls.

Þá skoruðu Tray Young og Dejounte Murray samtals 83 stig í einkar óvæntu tapi Atlanta Hawk gegn Houston Rockets, 128-122. Young skoraði 44 stig en Murray 39, það dugði þó ekki að þessu sinni.

Önnur úrslit

Charlotte Hornets 110-108 Minnesota Timberwolves

Orlando Magic 99-107 Philadelphia 76ers

Indiana Pacers 128-117 Brooklyn Nets

Miami Heat 110-107 Washington Wizards

Memphis Grizzlies 132-111 New Orleans Pelicans

Phoenix Suns 108-102 Detroit Pistons

Los Angels Clippers 104-114 Denver Nuggets




Fleiri fréttir

Sjá meira


×