Umfjöllun og viðtöl: Fram - Stjarnan 29-32 | Stór sigur fyrir Stjörnuna

Sindri Sverrisson skrifar
Tandri Már Konráðsson var afar öflugur fyrir Stjörnuna í kvöld.
Tandri Már Konráðsson var afar öflugur fyrir Stjörnuna í kvöld. vísir/Diego

Stjarnan hélt út gegn Fram og vann 32-29 sigur þegar liðin mættust í Úlfarsárdal, í Olís-deild karla í handbolta.

Stjörnumenn sendu með sigrinum skýr skilaboð um að þeir ætli sér sess í efsta hluta deildarinnar en þeir komust upp fyrir Fram í 5. sæti og eru aðeins stigi frá 2. sæti eins og staðan er núna, þó að FH og Afturelding eigi vissulega leik sinn til góða á morgun.

Tandri Már Konráðsson fór á kostum í Grafarholtinu og skoraði átta mörk úr ellefu tilraunum, oftast með algjörum þrumufleygum sem vörn Fram gat lítið gert í, og markvörðurinn Adam Thorstensen sneri aftur eftir minni háttar meiðsli og varði afar vel fyrir gestina eða alls tuttugu skot.

Adam og Tandri voru ekki síst mikilvægir á lokakafla leiksins þegar Fram hafði unnið upp fimm marka forskot Stjörnunnar. Tandri skoraði nánast að vild og Adam varði skot Reynis Þórs Stefánssonar með höfðinu og „hálföskraði“ hann af velli, og varði svo einnig víti Alexanders Más Egan sem hefði getað minnkað muninn í eitt mark þegar rúm mínúta var enn til stefnu.

Reynir og Stefán Darri Þórsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Fram sem fékk alls ekki sömu markvörslu í leiknum en hvorki Lárus Helgi Ólafsson, sem var með á ný eftir meiðsli, né Arnór Máni Daðason náðu sér á strik.

Þrjú naum heimatöp á átta dögum hjá Fram

Stjörnumenn byrjuðu leiktíðina í raun afar illa og virtust ekki geta spilað góðan sextíu mínútna leik en frá því í byrjun október er eina tapið leikurinn gegn Val í síðustu umferð, þar sem Stjarnan átti þó frábæran fyrri hálfleik.

Í Stjörnunni er mannskapur til að berjast að minnsta kosti um 2. sæti deildarinnar og þó að Björgvin Þór Hólmgeirsson hafi ekki getað spilað í kvöld vegna meiðsla þá kom það ekki að sök. Sannfæringin um að þar eigi Stjarnan heima hefur aukist mikið undanfarið og liðið höndlaði ágætlega slæman kafla sinn í seinni hálfleik í kvöld.

Framarar hafa á átta dögum tapað þremur jöfnum leikjum á heimavelli og spurning hvaða áhrif það hefur á liðið, sem komið hefur svo skemmtilega á óvart framan af leiktíð. Þeir eru komnir niður í 6. sæti, á þær slóðir sem frekar mátti búast við fyrir tímabil, en telja sig eflaust eiga meira inni eftir því sem meiðslastaðan skánar.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hefur ekkert getað beitt sér í þessum þremur síðustu leikjum og um það munar að sjálfsögðu, en á sama tíma fá leikmenn eins og Reynir Þór Stefánsson fleiri mínútur til að þroskast og dafna.

Unnu hratt upp fimm marka forskot

Leikurinn í kvöld var afar jafn í fyrri hálfleik en frekar þó að Stjarnan væri hænuskrefi á undan. Fram mistókst að nýta síðustu sókn sína fyrir hlé og staðan í hálfleik var því 16-14 fyrir gestina. 

Stjarnan náði hins vegar góðum kafla í byrjun seinni hálfleiks og bjó sér til fimm marka forskot og virtist ætla að innbyrða öruggan sigur en Framarar klóruðu sig aftur inn í leikinn á mjög skömmum tíma, þegar þeir náðu upp betri varnarleik og Ívar Logi Styrmisson skoraði til að mynda tvö mörk úr hraðaupphlaupum. 

Í örvæntingunni í lokin náði Ívar hins vegar ekki að grípa erfiða sendingu fram völlinn, þegar hann hefði getað minnkað muninn í eitt mark með mínútu til stefnu, og í næstu sókn innsiglaði Þórður Tandri Ágústsson sigurinn með sínu sjötta marki í leiknum en hann var afar öruggur á línunni fyrir Stjörnuna.

Patrekur: Stress og vandræði en við leystum það

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var stoltur af því hvernig hans menn leystu það að Fram skyldi ná að vinna upp forskot liðsins í seinni hálfleiknum. Hann var einnig ánægður með fleira.

„Ég var ánægður með okkur í fyrri hálfleik sóknarlega, skoruðum 16 mörk en fáum á okkur 14. Við hefðum átt að vera aðeins betri varnarlega. En ég var ánægður. Það gekk upp sem við vildum gera. Við vildum fá ágætis undirbúning í sóknunum og svo alvöru skot, og gerðum það vel þangað til í stöðunni 26-21 held ég. Þá fara menn einhvern veginn að breyta, leita að línunni og troð eitthvað, og það kom Fram inn í leikinn svo þetta var orðið jafnt. En það sýndi styrk að loka þessu því Fram er hörkulið,“ sagði Patrekur.

„Ég er ánægður að Tandri hafi skotið tólf sinnum á markið og skorað átta sinnum. Við þurfum á því að halda og hann er frábær skytta. Adam var sterkur í markinu og hjálpaði liðinu mikið þegar vörnin var að klikka því þá tók hann líka dauðafæri. En svo er líka gott að við höfum lokað þessum leik því oft höfum við verið að spila vel, í fyrri hálfleik sérstaklega, en svo hefur komið upp stress og vandræði og þá hefur þetta fjarað út. Núna kom stress og vandræði en við leystum það,“ sagði Patrekur og bætti við:

„Auðvitað er alltaf spenna og á að vera. Ég vissi fyrir leik að þetta yrði jafnt, það er alltaf þannig gegn Fram, en við unnum og það er ég gríðarlega ánægður með.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.