Umfjöllun: ÍBV - KA 34-30 | Annar sigur Eyjamanna í röð

Andri Már Eggertsson skrifar
Haukar - ÍBV Olís Deild karla haust 2022
Haukar - ÍBV Olís Deild karla haust 2022 vísir/Diego

ÍBV fylgdi síðasta sigri eftir með því að vinna KA nokkuð sannfærandi 34-30. Góður kafli Eyjamanna í fyrri hálfleik lagði grunninn að sterkum sigri. 

Jafnræði var með liðunum til að byrja með. Petar Jokanovic, markmaður ÍBV, var mættur aftur í markið eftir að hafa tekið út leikbann í síðasta leik. Petar varði sjö skot í fyrri hálfleik og voru það flest allt skot frá Einari Rafn Eiðssyni sem var í vandræðum með að koma boltanum framhjá Petar í opnum leik.

KA tók frumkvæðið og komst tveimur mörkum yfir 8-10 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Tveimur mörkum undir tóku heimamenn yfir leikinn og fóru illa með Akureyringa.

Sóknarleikur KA var skelfilegur. Gestirnir skoruðu aðeins eitt mark á tæplega tólf mínútum og það breytti engu máli hvort skot KA-manna komu fyrir utan punktalínu, gegnum brot eða úr hornunum. Það fór ekkert inn. Á meðan juku Eyjamenn forystuna og enduðu fyrri hálfleik á 10-2 áhlaupi. Staðan í hálfleik var 18-12.

Hraðinn og krafturinn í leiknum var ekki sá sami í upphafi síðari hálfleiks líkt og hann var á köflum í fyrri hálfleik. ÍBV byrjaði seinni hálfleik betur og sjö mörkum yfir tók Jónatan Magnússon, þjálfari KA, leikhlé.

Jónatan náði að breyta gang leiksins sér í hag þar sem KA náði 1-5 áhlaupi og minnkaði forskot ÍBV niður í þrjú mörk þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. 

KA tókst að minnka forskot heimamanna niður í tvö mörk en þá bitu Eyjamenn frá sér og gerðu það sem þurfti til að loka leiknum. ÍBV vann á endanum fjögurra marka sigur 34-30.

Af hverju vann ÍBV?

ÍBV spilaði síðustu fimmtán mínúturnar í fyrri hálfleik frábærlega þar sem þeir gerðu tíu mörk á meðan KA gerði aðeins tvö mörk. 

Eyjamenn spiluðu síðan vel þegar á reyndi í seinni hálfleik og áttu alltaf svar þegar gestirnir minnkuðu forskotið niður í 2-3 mörk. 

Hverjir stóðu upp úr?

Patrekur Stefánsson fór á kostum í dag og gerði 12 mörk úr 13 skotum. Patrekur geislaði af sjálfstrausti og skoraði nánast þegar hann vildi.

Janus Dam Djurhuus skoraði 6 mörk úr 8 skotum. Þetta var með betri leikjum sem Janus hefur spilað eftir að hann kom til ÍBV. 

Hvað gekk illa?

KA vantað framlag úr fleiri áttum. Það voru aðeins fimm leikmenn sem gerðu meira en eitt mark og sóknarleikurinn var mest á herðum Patreks og Einars Rafns Eiðssonar. 

Hvað gerist næst?

Næsta laugardag mætast ÍBV og Valur í Vestmannaeyjum klukkan 14:00.

Daginn eftir mætast KA og Grótta í KA heimilinu klukkan 17:00.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.