Innlent

Segir meiri há­vaða í mið­bænum eftir far­aldurinn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hannes segir ástandið skelfilegt.
Hannes segir ástandið skelfilegt. ívar fannar arnarsson

Íbúar í miðbænum kvarta sáran undan hávaða frá skemmtistöðum. Einn þeirra segir ástandið hafa versnað eftir covid faraldurinn og dæmi um að hóteleigendur hafi þurft að endurgreiða svefnvana gestum gistingu vegna hávaða. 

„Ég er búin að búa hérna í 42 ár og fylgjast með þessari þróun. Þetta er glænýtt fyrirbæri þannig séð og hefur versnað, sérstaklega eftir Covid faraldurinn,“ sagði Hannes Sigurðsson, íbúi í miðbænum.

Allt of margir skemmtistaðir séu í miðbænum og þeir starfræktir allt of þétt. Hannes segir að dæmi séu um að íbúar hafi selt og flúið svæðið.

„Borgin hefur breytt miðbænum, þessari perlu, í eitthvað „partízone“ þar sem fólk gengur berserksgang.“

Bassadrunur nýtt vandamál

Hannes kvartar sérstaklega undan bassadrunum.

„Og við þurfum að búa við þetta. Ekki bara hávaðann upp í 100 desíbel heldur drunur, það er líka nýtt fyrirbæri úr bössum sem voru ekki til fyrir tíu árum. Þetta eru miklu öflugri tæki.“

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segist finna til með íbúum en hún hefur nokkrum sinnum gert hávaða í miðbænum að umfjöllunarefni í borginni.

 Í vikunni var greint frá því að íbúar í lúxusíbúðum að Kolagötu 1 til 3 hefðu kært ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að veita fyrirtæki starfsleyfi til tólf ára til reksturs á skemmtistaðnum Skor.

Í kærunni segir að íbúar hafi mörgum sinnum kvartað vegna hávaða og steikingarlyktar - og að við haup hafi íbúum verið tjáð að á jarðhæðinni yrðu verslanir en ekki skemmtistaður.

Hannes segir að hóteleigendur hafi margir kvartað undan hávaða.

„Hér leigir fólk íbúðir dýrum dómi en fær síðan ekki svefnfrið. Hótel- og gististaðaeigendur þurfa hvað eftir annað að biðjast afsökunar og jafnvel veita afslátt eða endurgreiða fólki fyrir gistingu hér.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.