Um­fjöllun: Höttur - Stjarnan 89-92 | Stjarnan marði Hött í fram­lengingu

Gunnar Gunnarsson skrifar
Stjarnan vann á Egilsstöðum.
Stjarnan vann á Egilsstöðum. Vísir/Bára Dröfn

Stjarnan komst aftur á skrið eftir tvo tapleiki í röð með að vinna Hött á Egilsstöðum í kvöld og stöðvaði þar með þriggja leikja sigurgöngu heimamanna. Stjarnan knúði fram sigur í framlengingu eftir að Höttur hafði unnið upp forskot á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Stjarnan var aðeins tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 20-22 en það var í öðrum leikhluta sem dró í sundur með liðunum. Gestirnir höfðu hótað fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrsta leikhluta en það var í öðrum leikhluta sem þeir fóru að hitta af alvöru. Á sama tíma spiluðu þeir hörkuvörn og ýttu Hetti út í erfið skot. Að honum loknum var staðan 33-47.

Sá munur hélst út í gegnum þriðja leikhluta, eftir hann var Stjarnan áfram yfir, 53-67. Höttur átti samt eftir orku í eitt lokaáhlaup. Heimamenn náðu að koma muninum undir tíu stig og náðu slíkri sveiflu á lokamínútunni þegar þeir skoruðu átta stig gegn engum.

Það byrjaði með því að Kristján Fannar Ingólfsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk dæmd á sig óíþróttamannslega villu fyrir að fara aftan í Obie Trotter sem var að bera boltann upp eftir innkast. Hattarmenn nýttu það til hins ýtrasta, settu niður bæði vítin og svo þriggja stiga skot. Þeir fengu svo eina sókn í viðbót og Obie setti niður þriggja stiga körfu. Stjarnan átti síðustu sóknina en nýtti hana ekki.

Obie var áfram heitur framan í framlengingu en enn varð vendipunktur í kringum hann í stöðunni 88-83 þegar dæmd var á hann fimmta villan. Þar með losnaði um Robert Turner sem byrjaði á að jafna í 88-88 og setti síðan niður þriggja stiga körfu úr þröngri stöðu til að koma Stjörnunni í 89-92. Það reyndist síðasta karfa leiksins.

Robert Turner var stigahæstur hjá Stjörnuni með 15 stig en Adama Darbo skoraði 15. Hjá Hetti endaði Tim Guers með 25 stig, þótt hann skoraði ekkert í síðasta leikhlutanum. Næstur var Nemanja Knezevic með 21 stig, þar af 11 í fjórða leikhluta.

Af hverju vann Stjarnan?

Þegar horft er á leikinn í heild sinni var sigurinn verðskuldaður þótt Hetti tækist að knýja fram framlengingu. Hittni Stjörnunnar úr þriggja stiga skotum, ellefu stykkjum í fyrri hálfleik og sautján alls, gerði gæfumuninn.

Hverjir stóðu upp úr?

Robert Turner var maðurinn sem Höttur ætlaði að stöðva. Þegar margfaldað var á hann losnaði um aðra sem hittu. En þegar losnaði um Turner þá setti hann mikilvæg stig og dró Stjörnuna í gegnum framlenginguna. Hann skoraði ellefu af tólf stigum liðsins þar.

Hvað gekk illa?

Höttur var með 3/15 eða 20% nýtingu úr þriggja stiga skotum í hálfleik og alls 35% sóknarnýtingu þá. Þau hlutföll jöfnuðust milli liðanna þegar á leið en annar leikhlutinn var ekki Hattar.

En þótt Stjarnan spilaði betur þá var sóknarleikur liðsins oft heldur fljótfærnislegur eins og 22 tapaðir boltar bera með sér.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru með þrjá sigra eftir fyrstu sex leikina. Höttur spilar gegn Val í borginni á föstudagskvöld en Stjarnan tekur á móti Grindavík á fimmtudag.

Fórum eins langt upp og hægt var eftir að hafa grafið djúpa holu

Viðar Örn Hafsteinsson á hliðarlínunni.Vísir/Bára Dröfn

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður með baráttuna í sínu liði eftir að það tapaði 89-92 í framlengdum leik gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í röð. Höttur knúði fram framlenginguna með átta stigum í röð í blálokin.

„Ég er loftlaus, ég er ofboðslega ánægður með karakterinn og kraftinn sem við settum í að koma til baka. Við mynduðum góða stemmingu og sýndum fyrir hvað við viljum standa,“ sagði Viðar Örn eftir leikinn.

Höttur var 14 stigum undir í hálfleik þar sem leikaðferð Hattar, að stöðva Bandaríkjamanninn Robert Turner, kom í bakið á þeim þegar aðrir leikmenn Stjörnunnar svöruðu með að setja niður tíu þriggja stiga skot.

„Við vorum flatir og óeinbeittir til að byrja með auk þess sem Stjarnan refsaði fyrir það sem við þjálfararnir ætluðum að reyna lifa með. Við spiluðum góða vörn á móti Turner en þurftum að gefa annað eftir og ég verð að hrósa mönnum eins og Tómasi Þórði [Hilmarssyni] og Hlyni [Bæringssyni]. Stjarnan skoraði alls ellefu þrista í fyrri hálfleik. Það var munurinn á liðunum sem og litlir hlutir sem við gáfum þegar við gleymdum okkur.“

Trúði ekki að Stjarnan myndi hitta áfram

Hattarliðið kom öflugra út í seinni hálfleikinn og reyndi hvað það gat að vinna upp forskot Stjörnunnar. Það tókst loks síðustu hálfu mínútuna.

„Ég var ósáttur við bæði sjálfan mig og þá. Við skerptum á ákveðnum hlutum í hálfleik en þeir stóðu okkur vel af sér í þriðja leikhluta. Ég hafði ekki trú á að jólin kæmu snemma, það er enn bara 21. nóvember, því þeir héldu áfram að raða niður skotum.

Við sýndum geggjaðan karakter í fjórða leikhluta. Við fórum eins lagt og við gátum eftir að hafa komið okkur ofan í djúpa holu en við vorum líka að spila á móti liði með góða reynslu í svona stöðu. Það fór mikil orka í það.“

Enn einn vendipunkturinn var þegar Obie Trotter fékk sína fimmtu villu í framlengingunni í stöðunni 88-83 en hann spilaði frábæran varnarleik, einkum gegn Turner. Við það losnaði um þann síðarnefnda sem tryggði Stjörnunni sigurinn. „Það var vont að missa hann út eftir óþarfa brot. Obie var frábær en gleymdi sér smá stund og var of ákafur. Það er betra að menn séu aðeins of ákafir en hitt.“

Ókristilegur leiktími

Stemmingin á lokamínútunni er trúlega sú háværasta sem nokkurn tíma hefur heyrt í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Undir það tók Viðar en benti á að leikurinn hefði verið heldur seint á ferðinni. Hann hófst klukkan 20:15 og var ekki búinn fyrr en um 22:30.

„Stemminingin var flott og fullt af fólki en það er ömurlegt að vera nánast að spila á nóttinni á virkum dögum. Við erum að reyna að efla körfuboltann hér með að fá fjölskyldur og börn á leiki. Lið Stjörnunnar kom í morgun – hví gátum dómararnir ekki komið fyrr þannig spilað væri á venjulegum leiktíma. Þetta er ókristilegur tími.“

Vignir Freyr: Varnarleikurinn bætti upp fyrir mistökin í sókninni

Vignir Freyr Magnússon, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, þakkaði sterkum varnarleik 89-92 sigurinn á Hetti í framlengdum leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Garðbæingar þurfa hins vegar að lagfæra aðeins sóknarleikinn.

Stjarnan var 14 stigum yfir þegar fjórði leikhluti hófst en Höttur saxaði á það forskot og jafnaði með átta stigum í blálokin.

„Við gátum ekki haldið boltanum í okkar höndum. Þeir spila vel í fjórða leikhluta og ná þannig að setja pressu á okkur en ástæðan fyrir að við töpum þessu niður í lokin er sá að við gáfum þeim boltann of oft.

Við spiluðum vel í fyrri hálfleik og vorum þá að skora þótt við misstum boltann þess á milli. Síðan byrjum við þriðja leikhluta á að tapa sex boltum á þremur mínútum og það gefur þeim allt of mikið. Við töpuðum oft 20 boltum í æfingaleikjum og héldum það myndi skána en það hefur ekki gengið og vel. Vonandi stefnir þetta nú í rétta átt,“ sagði Vignir.

Hann var hins vegar ánægðari með varnarleik Stjörnunnar. 

„Mér fannst hann mjög góður. Vörnin gaf okkur svigrúm til að gera mistök í sókninni. Mér fannst Kristján Fannar [Ingólfsson] mjög góður, bæði gegn Matej [Karlovic] og öðrum sem hann dekkaði. Síðan var Julius (Jucikas) mjög góður undir körfunni.

Höttur skoraði 13 stig í öðrum leikhluta. Þar náðum við að þrönga þeim í erfið skot og beina þeim á annan varnarmann frekar en þeir kæmust maður á móti manni. Varnarleikurinn skapaði þennan sterka sigur í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira