Sport

Carlsen í öðru sæti með tvo vinninga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Magnus Carlsen situr í öðru sæti B-riðils á heimsmeistaramótinu í Fischer slembiskák sem fram fer hér í Reykjavík um þessar mundir.
Magnus Carlsen situr í öðru sæti B-riðils á heimsmeistaramótinu í Fischer slembiskák sem fram fer hér í Reykjavík um þessar mundir. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Norski stórmeistarinn Magnus Carlsen situr í öðru sæti B-riðils á heimsmeistaramótinu í Fischer slembiskák sem fram fer á Hótel Natura í Reykjavík. Carlsen er með tvo vinninga, en hann laut í lægra haldi gegn Hikaru Nakamura í seinustu skák kvöldsins.

Carlsen, sem situr í efsta sæti heimslistans, hóf leik gegn Rússanum Vladimir Fedoseev, sem situr í 52. sæti heimslistans, þar sem Norðmaðurinn hafði betur áður en þeir sættust á jafnan hlut í síðari skák sinni.

Carlsen mætti síðan Hikaru Nakamura sem situr í fimmta sæti heimslistans, en þeir sættust á jafnan hlut í fyrri skák sinni áður en Nakamura hafði betur í þeirri seinni.

Nakamura situr því í efsta sæti B-riðils með þrjá vinninga eftir daginn, Carlsen situr í öðru sæti með tvo vinninga, líkt og Feoseev, en Matthias Bluebaum rekur lestina með engan vinning.

Í A-riðli trónir hinn 18 ára gamli Nodirbek Abdusattorov á toppnum með þrjá og hálfan vinning, ríkjandi heimsmeistari í Fischer slembiskák, Wesley So, situr í öðru sæti með tvo vinninga, líkt og Ian Nepomniachtchi, en Hjörvar Steinn Grétarsson rekur lestina með hálfan vinning.


Tengdar fréttir

Býst við Carlsen í úrslitum á Fischerskákmótinu

Margir af öflugustu skákmönnum heims með heimsmeistarann Magnús Carlsen í broddi fylkingar eru á leið til Íslands til að keppa um heimsmeistaratitilinn í Fisher skák. Heimsmeistarinn hlýtur 21 milljón í verðlaun.

Magnus Carlsen kominn til landsins með foreldrum sínum

Norðmaðurinn Magnus Carlsen er kominn til Íslands. Heimsmeistarinn kom með flugvél Icelandair frá Osló í gærkvöldi en með í för eru faðir hans og móðir, Henrik Albert Carlsen og Sigrun Øen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×