Sport

Belgarnir brutu hundrað hringja múrinn og klukkuna í leiðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Merijn Geerts og Ivo Steyaert stilltu sér upp með belgíska fánann.
Merijn Geerts og Ivo Steyaert stilltu sér upp með belgíska fánann. Youtube

Belgarnir Merijn Geerts og Ivo Steyaert eru enn að hlaupa í heimsmeistarakeppni landsliða í bakgarðshlaupum og hafa nú klárað hundrað hringi.

Þeir komu saman í mark eftir þann hundraðasta og lögðu síðan aftur af stað eftir að hafa setið fyrir á myndum fyrir fjölmiðla sem voru mættir til að fylgjast með þessum tímamótum.

Nú setja þeir heimsmet í hverjum hring en gamla metið var 90 hringir.

Það vakti sérstaka athygli að klukkan hjá Belgunum þoldi ekki álagið því hún stoppaði í 99:99:99 í stað þess að fara aftur í núll.

Þeir eru búnir að vera á ferðinni í hundrað klukkutíma en þeir byrjuðu að hlaupa á laugardaginn.

Þeir líta báðir vel út og virðast eiga eitthvað eftir enn. Það er enginn með það á hreinu hvað tekur við en hundraðasti hringurinn var vissulega stórt markmið.

Þriðji í keppninni var Japaninn Shibawaki Daiki sem fór 86 hringi og þessir tveir hafa því hlaupið einir í heiminum í fjórtán klukkutíma.

Klukkan stoppaði í 99:99:99.Youtube

Það má fylgjast með þeim í beinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×