Um­fjöllun, við­töl og myndir: Fjölnir - Njarð­vík 84-95 | Ís­lands­meistararnir höfðu betur í Grafar­voginum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bríet Hinriksdóttir á fullri ferð gegn Dagnýju Lísu Davíðsdóttur í leiknum í kvöld
Bríet Hinriksdóttir á fullri ferð gegn Dagnýju Lísu Davíðsdóttur í leiknum í kvöld Vísir/Bára

Íslandsmeistarar Njarðvíkur unnu annan leik sinn í Subway deild kvenna á tímabilinu þegar þær lögðu Fjölni í Grafarvogi nú í kvöld. Lokatölur 95-84 og Njarðvík því með fjögur stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar en Fjölniskonur tvö.

Njarðvík tók frumkvæðið í upphafi en var í vandræðum með að hrista Fjölnisliðið almennilega af sér. Munurinn var kominn í átta stig eftir fyrsta leikhluta og jókst fyrir hálfleik. Þegar Fjölnir gerði sig líklega til að minnka muninn að ráði svöruðu Njarðvíkurstúlkur alltaf og juku muninn á ný.

Staðan í hálfleik 53-41 Njarðvík í vil. Vörn Fjölniskvenna of opin en nýr leikmaður þeirra, Taylor Jones, sýndi oft á tíðum góða takta.

Taylor Jones kom af krafti inn í lið Fjölnis.Vísir/Bára

Í þriðja leikhluta voru það svo heimakonur sem byrjuðu mun betur. Þær náðu að minnka muninn jafnt og þétt og minnst varð hann fjögur stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Þær mínútur nýttu gestirnir hins vegar afar vel. Þær settu í næsta gír og áður en lokaleikhlutinn hófst var staðan 74-61 gestunum í vil, svo sannarlega góður endasprettur á þriðja leikhluta hjá Njarðvík.

Ef Fjölniskonur báru von í brjósti um að gera þetta að spennuleik var sú von fljót að deyja í upphafi fjórða leikhluta. Njarðvík byrjaði af krafti og kom muninum mest í tuttugu og eitt stig.

Eftir það var eiginlega bara spurning hversu mikill munurinn yrði að lokum. Njarðvík sigldi sigrinum nokkuð þægilega í höfn, lokatölur 94-85 og Íslandsmeistararnir því komnar með tvo sigra í Subway-deildinni eftir þrjár umferðir.

Af hverju vann Njarðvík?

Þær spiluðu heilt yfir betri varnarleik þó svo að Rúnar Ingi þjálfari vilji eflaust sjá þær gera betur á þeim enda vallarins. Þá er Njarðvík bæði með ofboðslega góða einstaklinga í sínu liði og góða liðsheild. Þegar á þurfti að halda þá steig einhver upp og tók af skarið, oftar en ekki Aliyah Collier eða Lavina De Silva.

Lavina De Silva skorar tvö af stigum sínum í leiknum í kvöld.Vísir/Bára

Varnarleikur Fjölnis var ekki nógu góður og oft fengu þær á sig körfur undir lok leikhlutans eftir að hafa haldið ágætlega í góða stund. Þá gáfu þeim Njarðvíkurliðinu alltof of auðveld sóknarfráköst.

Þá er vert að minnast á að það vantaði Simone Sill í lið Fjölnis og munar um minna því hún skilaði góðu framlagi gegn ÍR í síðasta leik.

Þessar stóðu upp úr:

Aliyah Collier var traust að vanda hjá Njarðvík. Hún skoraði 27 stig og tók fjölmörg fráköst. Lavina De Silva skilar sömuleiðis oftast sínu og það var í raun engin Fjölnisleikmaður sem átti roð í hana í fráköstum ef hún var á réttum stað.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sækir að Bríet Hinriksdóttur í leiknum í kvöld.Vísir/Bára

Þá er vert að minnast á innkomu Kristu Glóar Magnúsdóttur sem átti góða innkomu, kom inn af krafti og setti stig á töfluna auk þess að verja skot og taka fráköst.

Hjá Fjölni var Taylor Jones góð í sínum fyrsta leik. Það dró þó af henni en hún verður augljóslega mikill styrkur fyrir Fjölnisliðið.

Hvað gekk illa?

Vörn Fjölnis var ekki nógu góð. Í fyrri hálfleik fengu þær á sig 53 stig sem er ekki líklegt til afreka. Nýr leikmaður þeirra, Taylor Jones, byrjaði af krafti en það dró af henni þegar á leið.

Njarðvík tók mörg sóknarfráköst og það er eitthvað sem Fjölnisliðið þarf að tapa og atriði sem Kristjana þjálfari ræddi eftir leik.

Dagný Lísa Davíðsdóttir og Aliyah Collier í mikilli baráttu.Vísir/Bára

Þá gekk Fjölnismönnum í Dalhúsum ekki nógu vel að halda tölfræðinni gangandi. Þeir voru í veseni með klukkuna rétt fyrir leik og svo hrundi tölfræðikerfið fyrir hálfleik. Óheppilegt í íþrótt þar sem þjálfarar og fjölmiðlar nýta sér tölfræðina mikið.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga útileiki í næstu umferð. Fjölnir fer í Kópavoginn og mætir Breiðablik en Njarðvík fer í Breiðholtið þar sem nýliðar ÍR bíða.

Rúnar Ingi: Við erum með virkilega duglega leikmenn sem vilja fara inn í teiginn og vera í allskonar baráttu og slag

Rúnar Ingi Erlingsson er þjálfari Njarðvíkur.Vísir/Bára

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var ánægður með liðið í sigrinum gegn Fjölni í kvöld en vildi þó sjá betri varnarleik heilt yfir.

„Tvö stig á útivelli gegn deildarmeisturum síðasta árs. Ég er heilt yfir ánægður með okkar frammistöðu, við skorum 95 stig held ég og gerum mjög vel sóknarlega en klikkum á fullt af galopnum skotum sem við erum samt að skapa okkur sem er lykilatriði,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við Vísi eftir leik.

Krista Gló Magnúsdóttir leikmaður Njarðvíkur átti góða innkomu hjá Íslandsmeisturunum.Vísir/Bára

„Varnarlega getum við gert miklu betur en við sýndum að við eigum inni þennan gír. Við komum muninum í fyrri hálfleik í 15-16 stiga mun og í seinni hálfleik í þrjátíu af því mér fannst við ákveða að núna skulum við sýna þeim að við erum Íslandsmeistarar og góðar í körfu. Við vorum kannski eitthvað að spara orkustigið.“

„Við spiluðum á tólf leikmönnum sem eru allir að ná takti og tengja saman í því sem við erum að gera. Það er flott að koma hingað og taka tvö stig.“

Í þriðja leikhluta náði Njarðvík að minnka muninn í fjögur stig en Njarðvík átti einhvern veginn alltaf svar þegar Fjölnisliðið gerði sig líklegt til að ógna.

„Mér fannst við stjórna leiknum heilt yfir. Við vorum að klikka í galpnum skotum og þær keyrðu á okkur nokkrum sinnum. Um leið og við önduðum aðeins og fórum að hafa trú á þessum opnu skotum þá fannst mér sigurinn aldrei í hættu, það varð ekkert stress þó munurinn væri að minnka.“

Njarðvík fagnar.Vísir/Bára

„Gamla góða klisjan er að körfubolti er leikur áhlaupa og þær komu þarna með einhver stig í röð en við svöruðum. Þannig var takturinn í þessu,“ bætti Rúnar Ingi við.

Njarðvík tók fjölmörg sóknarfráköst í kvöld sem skilaði þeim dýrmætum stigum.

„Við gerðum mjög vel í að nýta sóknarfráköstin í fyrra. Við erum með virkilega duglega leikmenn sem vilja fara inn í teiginn og vera í allskonar baráttu og slag. Við nýtum okkur það og viljum líka hvetja okkar skotmenn til að skjóta alltaf þegar þær eru opnar, aldrei hika. Það eru 50% líkur á að við tökum boltann og skorum ef einhver hittir ekki.“

„Við þurfum að innprenta þetta sjálfstraust og ég hef alltaf sagt að mér sé sama hver skorar, ég vil fá opið skot og ef það fer ekki ofan í þá er einhver önnur í grænum búning sem tekur frákastið og skorar. Það kemur út á það sama, ef við fáum tvö stig þá er ég sáttur.“

Collier: Þurfum nokkra leiki í viðbót til að læra betur inn á hverja aðra

Aliyah Collier var að vanda sterk hjá Njarðvík.Vísir/Bára

Aliyah Collier átti góðan leik hjá Njarðvík í kvöld eins og nær oftast. Hún var ánægð með sigurinn gegn Fjölni.

„Mér fannst þetta góður sigur gegn erfiðu liði sem er með öflugt lið. Mér fannst við koma með smá auka og það var nóg til að ná í sigurinn,“ sagði Collier í samtali við Vísi eftir leik.

„Við vorum með gott orkustig. Okkur fannst við aldrei vera að missa þetta frá okkur. Við héldum áfram í vörninni og vorum ákveðnar í að keyra á körfuna og finna lausan leikmann. Við spiluðum vel saman og ég held að það hafi gert gæfumuninn.“

Urte Slavickaite var öflug hjá Fjölni.Vísir/Bára

Njarðvíkurliðið kom mörgum á óvart í fyrra og varð Íslandsmeistari sem nýliði í deildinni. Collier viðurkennir að það sé öðruvísi að koma í leikina núna.

„Það er kannski ekki meiri pressa á okkur vegna aukinna væntinga heldur vitum við að öll liðin eru að fara að mæta okkur með 110% baráttu og munu gera sitt besta til að vinna okkur. Pressan felst í því að þurfa að mæta klárar í hvern einasta leik og spila vel.“

Njarðvík er með töluvert breytt lið frá því liði sem vann titilinn í fyrra en Collier segir nýju leikmennina passa vel inn.

„Við þurfum bara nokkrar æfingar í viðbót og fleiri leiki til að læra betur inn á hverja aðra. Þetta var svolítið upp og niður hjá okkur en nokkrir leikir í viðbót og þá verðum við komnar á réttan stað.“

Kamilla Sól Viktorsdóttir er fyrirliði Njarðvíkur.Vísir/Bára
Barátta í leik Fjölnis og NjarðvíkurVísir/Bára
Dagný Lísa og Krista Gló í baráttunni.Vísir/Bára
Anna Lilja Ásgeirsdóttir, Njarðvík.Vísir/Bára
Aliyah CollierVísir/Bára
Krista Gló Magnúsdóttir, Njarðvík.Vísir/Bára
Kamilla Sól Viktorsdóttir, Njarðvík.Vísir/Bára
Raquel Laniero er leikstjórnandi Njarðvíkur.Vísir/Bára
Dzana Crnac, Njarðvík.Vísir/Bára

Tengdar fréttir

Kristjana: Sendum beiðni þann 20.júní um að færa þennan leik en KKÍ sagði nei

„Við þurfum klárlega að stíga upp varnarlega, við vorum góðar í vörn í síðasta leik en þetta hefur háð okkur í þessum tveimur leikjum sem við höfum tapað. Þegar við spilum góða vörn þá vinnum við, svo einfalt er þetta,“ sagði Kristjana Jónsdóttir þjálfari Fjölnis eftir tap gegn Njarðvík í Subway deild kvenna í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.