Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Hörður 35-34 | ÍR-ingar sjóðheitir á nýjum heimavelli

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
hulda margrét hörður
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

ÍR tók á móti Herði í fjórðu umferð Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn fór hratt af stað og bæði lið ákveðin að sækja stig. ÍR hafði betur og sigraði með einu marki 35-34.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar tók leikhlé í stöðunni 5-1 og skerpti á hlutunum hjá sínum mönnum. Áfram var brekkan brött fyrir Harðarmenn en eftir um stundarfjórðung minnti þetta helst á borðtennisleik þar sem staðan var 12-9.

Það hægðist aðeins á leiknum þegar leið á enda bæði lið búin að gjörsamlega keyra sig út á fyrstu mínutunum. Þegar um fimm mínútu voru til loka fyrri hálfleiks voru Harðarmenn búnir að minnka muninn í eitt mark, 15-14. Þá tekur Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, leikhlé og fer yfir málin. ÍR-ingar gáfu aðeins í undir lok fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum, 19-16.

ÍR að fagna í kvöldVísir: Hulda Margrét

ÍR-ingar héldu áfram að auka forskotið í seinni hálfleiknum en sá fór töluvert hægar af stað en sá fyrri. Þegar um stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleik var staðan 28-24. Bjarni Fritzon tekur þá leikhlé þar sem sóknarleikurinn virtist vera að detta niður hjá þeim. Það gekk ekki betur en ÍR-ingar áttu tvær misheppnaðar sóknir í röð á meðan Harðarmenn minnkuðu muninn.

Þegar tæplega fimm mínútur voru til leiksloka leiddu ÍR-ingar með fjórum mörkum 35-31. Þá taka Harðarmenn leikhlé þar sem að þeir voru búnir að minnka muninn í tvö mörk rétt áður. Harðarmenn gerðu áhlaup undir lokin og skoruðu þeir til að mynda þrjú mörk í röð á loka mínútunum en það dugði ekki til og sigraði ÍR með einu marki 35-34. 

Afhverju vann ÍR?

ÍR-ingar byrjuðu leikinn virkilega vel og keyrðu tempóið upp. Hörður elti allan leikinn og náðu ekki að setja sig í sama gír og ÍR. Þeir duttu aðeins niður undir lokin en voru með það gott forskot að það sakaði ekki. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá ÍR var Viktor Sigurðsson atkvæðamestur með tíu mörk. Arnar Freyr Guðmundsson var með níu mörk. Ólafur Rafn Gíslason var frábær í markinu og var til að mynda með 52% markvörslu í fyrri hálfleik. 

Viktor Sigurðsson var með tíu mörk í kvöldVísir: Hulda Margrét

Hjá Herði voru Mikel Amilibia Aristi og Suguru Hikawa með sex mörk hvor. 

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar settu tóninn strax í byrjun leiks og var leikurinn gríðarlega hraður í byrjun. Harðarmenn áttu erfitt með að setja sig í sama gír og enduðu á að elta allan leikinn. 

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga rútuferðir framundan. Sunnudaginn 2. október kl. 14:00 sækir Hörður ÍBV heim. Fimmtudaginn 6. október kl. 19:30 sækir ÍR KA heim.

Bjarni Fritzon: ,,Ég frétti að það væru nokkrir sem komnir með hálsríg“

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍRVísir: Hulda Margrét

Bjarni Fritzon var fáorður og mjög ánægður með frammistöðu sinna manna er þeir unni eins marks sigur, 35-34 á Herði í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Aðspurður hvernig honum liði eftir leikinn svaraði hann mjög hnitmiðað ,,mjög vel.“

Aðspurður hvað gekk vel í leik ÍR í kvöld sagði Bjarni þetta:

,,Ég myndi segja stórkostlegur sóknarleikur, ef við lítum á skorið. Mér fannst þetta geggjaður leikur. Mér fannst hrikalega gaman að spila við þá og ég vill hrósa þeim. Mér finnst rosalega flott það sem að þeir eru að gera, það er gaman að undirbúa sig fyrir þá og leikmenn í þessu liði eru mjög góðir.“

Leikurinn var mjög hraður og voru nánast allir í húsinu fegnir þegar flautað var til loka fyrri hálfsleiks. Bjarni sagði að því meiri hraði, því meira stuð. 

,,Ég frétti að það væru nokkrir sem komnir með hálsríg, orðin slöpp í hálfleik. Nei, við erum að reyna að vera hraðari ef eitthvað er. Meiri hraða, meiri stuð.“

Bjarni vill að strákarnir jafni sig fyrir næsta leik. 

,,Ég vill að þeir jafni sig. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir næsta leik en við erum bara hér í mómentinu að vera glaðir, borða og jafna sig og svona.“


Tengdar fréttir

„Þeir voru betri en við og ég óska ÍR til hamingju“

„Mér líður ekki vel. Ég held að við og ég segi það sama og ég sagði eftir síðasta leik, við verðum að vera betri. Frá byrjun vorum við að elta þá og það er svo erfitt að byrja leikinn á elta og það er erfitt í sextíu mínútur. Þeir voru betri en við og ég óska ÍR til hamingju, góður leikur hjá þeim,“ sagði Carlos Martin Santos, eftir tap á ÍR í kvöld. Lokatölur 35-34. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira