Handbolti

„Það er hrikalega mikilvægt að við sýnum styrkleika að landa svona sigrum“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var gríðarlega sáttur með sína menn eftir að þeir sigruðu Aftureldingu með einu marki 25-24 í fyrsta leik Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. 

„Mér líður mjög vel. Ég er ógeðslega ánægður með strákana, þetta var erfiður leikur og fullt sem að við þurfum að glíma við. Þetta voru kaflaskiptir hálfleikar, auðvitað getum við spilað betur en ég er mjög ánægður og það er hrikalega mikilvægt að við sýnum styrkleika að landa svona sigrum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir leikinn. 

„Við vorum að fókusera á okkur sjálfa og ég ligg ekki yfir æfingarleikjum hjá hinum liðunum. Afturelding er með dúndur lið. Eins og ég segi það voru kaflaskiptir hálfleikirnir og við vorum slappir varnarlega í fyrri hálfleik og löguðum það í seinni hálfleik, hitt fylgdi kannski ekki.“

Sérfræðingar íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sport spá Val fyrsta sæti í deildinni í ár. Þeir tóku þrennuna í fyrra og unnu nú á dögunum Meistarakeppni HSÍ. Snorri segir strákana ætla sér að vera í efri hlutanum. 

„Þetta verður spennandi og þetta verður erfitt. Það er fullt af liðum sem gera tilkall í þetta eins og við sjáum í dag. Þetta er bara einn leikur og við verðum að sjá hvernig tímabilið þróast en við ætlum okkur að vera í efri hlutanum.“

Valsmenn mæta Herði frá Ísafirði í næstu umferð og segir Snorri það vera gríðarlega krefjandi verkefni. 

„Það er gríðarlega krefjandi verkefni. Hörður er náttúrulega nýliði að spila sinn fyrsta leik og við vitum lítið um þá og þekkjum ekki leikmennina þeirra eins og þeir eru í dag. Það krefst lagni og einbeitingar hjá okkur öllum að mæta eins og menn í þann leik og gera það af fagmennsku því þeir eiga eftir að bíta frá sér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×