Körfubolti

Serbía með fullt hús eftir stór­sigur á Finn­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nikola Jokić átti góðan leik í kvöld.
Nikola Jokić átti góðan leik í kvöld. Pedja Milosavljevic/Getty Images

Serbía vann 30 stiga sigur á Finnlandi á EuroBasket, Evrópumóti karla í körfubolta, í kvöld. Þá vann Úkraína góðan sigur á Ítalíu og er einnig með fullt hús stiga.

Serbía gekk einfaldlega frá leiknum strax í fyrri hálfleik en munurinn var þá strax orðinn 28 stig. Það fór svo þannig að Serbía vann með sléttum 30 stiga mun, lokatölur 100-70.

Lauri Markkanen gerði hvað hann gat í liði Finnlands en hann mun leika með Utah Jazz í NBA deildinni á komandi leiktíð. Hann var stigahæstur allra á vellinum með 18 stig ásamt því að taka sjö fráköst og gefa fimm stoðsendingar á þeim 23 mínútum sem hann spilaði.

Nikola Jokić fór fyrir sínum mönnum í Serbíu en ásamt því að skora 13 stig þá tók hann 14 fráköst og gaf sjö stoðsendingar á þeim 26 mínútum sem hann spilaði.

Serbía er með fullt hús stiga í D-riðli að loknum þremur leikjum og í raun bara spurning hvaða þjóðir fara með Serbíu upp úr riðlinum en alls fara fjögur lið af sex áfram.

Úkraína vann góðan sigur á Ítalíu í lokaleik dagsins, lokatölur 84-73. Sigurinn þýðir að Úkraína jafnar Grikkland að stigum í C-riðli en báðar þjóðir eru með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×