Körfubolti

Sex­an hengd upp í rjáfur til heiðurs Bill Rus­sell | Hvað gerir LeBron James?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James og Bill Russell fyrir hartnær áratug er LeBron leiddi Miami Heat til sigurs í NBA deildinni. LeBron lék í treyju númer 6 hjá Miami líkt og hann gerði á síðustu leiktíð hjá Los Angeles Lakers en Russell lék allan sinn feril í treyju númer 6.
LeBron James og Bill Russell fyrir hartnær áratug er LeBron leiddi Miami Heat til sigurs í NBA deildinni. LeBron lék í treyju númer 6 hjá Miami líkt og hann gerði á síðustu leiktíð hjá Los Angeles Lakers en Russell lék allan sinn feril í treyju númer 6. Kevin C. Cox/Getty Images

NBA deildin í körfubolta hefur ákveðið að hengja treyju númer 6 upp í rjáfur til heiðurs goðsögninni Bill Russell. Það þýðir að aldrei aftur mun neinn spila í treyju númer 6 í NBA deildinni. LeBron James, ein skærasta stjarna deildarinnar lék í treyju númer 6 á síðustu leiktíð og því spurning hvaða númer hann mun bera á bakinu er deildin hefst á nýjan leik í haust.

Bill Russell, sigursælasti leikmaður NBA deildarinnar frá upphafi, lést þann 31. júlí síðastliðinn. Hann var 88 ára gamall. Hann hafði glímt við veikindi en í tilkynningu frá fjölskyldu Russell segir að hann hafi kvatt þennan heim friðsællega með eiginkonu sína sér við hlið.

Russell varð ellefu sinnum NBA meistari á ferli sínum með Boston Celtics á árunum 1956-1969 og var fimm sinnum valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar en enginn leikmaður hefur unnið deildina jafn oft. 

Russell er goðsögn í körfuboltaheiminum um allan heim og í miklum metum í íþróttasamfélaginu í Bandaríkjunum en hann og íshokkíleikmaðurinn Henri Richard eru sigursælustu íþróttamennirnir í bandarískum hópíþróttum frá upphafi.

Hann lék jafnan í treyju númer 6 hjá Boston Celtics og var það treyjunúmer sett upp í rjáfur TD Garden þegar Russell hætti að spila. Nú hefur NBA deildin ákveðið að gera slíkt hið sama.

Aðeins hafði tveimur íþróttamönnum í sögu bandarískra íþrótta hlotnast sá heiður áður. Hafnaboltamaðurinn Jackie Robinson (númer 42) og íshokkíleikmaðurinn Wayne Gretzky (númer 99).

Á síðustu leiktíð voru alls 14 leikmenn númer 6 í NBA deildinni. Stærsta nafnið er án efa LeBron James en reikna má með að hann fari aftur í sitt gamla númer, 23. Hann hefur leikið í treyjum númer 6 og 23 til skiptis á ferli sínum.

Önnur stór nöfn sem þurfa að finna sér ný treyjunúmer eru Alex Caruso, Lou Williams, Montrezl Harrell og Kristaps Prozingis.

LeBron James fær ekki að leika aftur í treyju númer 6.Robert Gauthier/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×