Handbolti

Tryggvi Þórisson nýr leikmaður sænsku deildarmeistaranna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Þórisson er á leið til Svíþjóðar.
Tryggvi Þórisson er á leið til Svíþjóðar. Vísir/Hulda Margrét

Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson var í dag kynntur til leiks sem nýr leikmaður sænsku deildarmeistaranna í Sävehof.

Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Sävehof, en Tryggvi er stór og stæðilegur línumaður sem hefur leikið á Selfossi allan sinn feril. Hann skrifar undir tveggja ára samning við Sävehof.

Tryggvi hefur leikið mikilvægt hlutverk í varnarleik Selfyssinga undanfarin ár og tækifæri hans í sóknarleiknum jukust umtalsvert á seinasta tímabili.

Þá lék Tryggvi einnig stórt hlutverk með U20 ára landsliði Íslands sem hafnaði í 11. sæti Evrópumótsins sem fram fór í Portúgal fyrr í sumar. Árangur landsliðsins skilaði liðinu sæti á HM U21 árs landsliða sem fram fer á næsta ári.

Sävehof varð sem áður segir deildarmeistari í Svíþjóð á seinasta tímabili, en féll úr leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar gegn verðandi meisturum í Ystads IF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×