Erlent

Bíður þess að hjartað hætti að slá eða að hún fái sýkingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Prudente og Weeldreyer á sjúkrahúsinu.
Prudente og Weeldreyer á sjúkrahúsinu.

Óttast er um líf bandarískrar konu sem er að missa fóstur á spítala á Möltu en fær ekki að gangast undir þungunarrof þar sem slíkar aðgerðir eru bannaðar með öllu í landinu. „Ég vil bara komast héðan lifandi,“ sagði konan við Guardian í gær.

Andrea Prudente ferðaðist til Möltu með eiginmanni sínum til að upplifa svokallað „babymoon“; frí áður en barn kemur í heiminn. Eina nóttina byrjaði henni hins vegar að blæða mikið og leitaði þá á sjúkrahús.

Læknar á eyjunni Gozo skrifuðu upp á lyf til að freista þess að koma í veg fyrir fósturmissi en tveimur dögum seinna, þegar parið var aftur komið til Möltu, missti Prudente vatnið og var lögð inn. 

Í ljós kom að fylgjan hafði losnað og það var ekkert legvatn eftir. Prudente var tjáð að fóstrið myndi ekki lifa. Henni var hins vegar sömuleiðis greint frá því að vegna laga gegn þungunarrofi gætu læknarnir ekkert gert fyrr en hjarta fóstursins hætti að slá eða Prudente fengi sýkingu.

Prudente var komin 16 vikur á leið.

Prudente var flutt á annað sjúkrahús þar sem í ljós kom að naflastrengurinn var farinn að þrýstast út um legháls hennar, sem eykur líkurnar á blæðingu og sýkingu. Þá var hún einnig greind með Covid-19.

En læknarnir geta ekkert gert, segja þeir.

„Þetta er óhugsandi form tilfinningalegra og andlegra pyntinga,“ segir Jay Weeldreyer, maki Prudente. „Hluti af mér fagnar því enn að heyra hjartsláttinn en á sama tíma vil ég ekki hjartsláttinn því hann er aðeins að leiða til meiri þjáninga fyrir konuna sem ég elska.“

Parinu hefur verið ráðlagt að snúa aftur á hótelið sitt og bíða þess að hjartslátturinn stöðvist eða að Prudente fái sýkingu.

Þau segjast ekki hafa haft hugmynd um löggjöfina á Möltu þegar þau ákváðu að ferðast þangað og vilja nú ekkert heitar en að komast frá landinu til að Prudente fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Prudente segist hafa viljað segja frá stöðu sinni til að forða öðrum konum frá því sem hún er að ganga í gegnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×